Skutu óvart á hóp ferðamanna

Lögreglan í Egyptalandi að störfum.
Lögreglan í Egyptalandi að störfum. AFP

Egypskar öryggissveitir hafa óvart drepið 12 manns, m.a. mexíkóska ferðamenn, í aðgerðum gegn hryðjuverkum. Þetta er haft eftir innanríkisráðuneyti landsins í frétt BBC um málið. 

Ferðamennirnir voru í fjórum ökutækjum og fóru inn á bannsvæði í Wahat-héraði. Tíu Mexíkóar og Egyptar særðust einnig í árásinni og eru á sjúkrahúsi. Innanríkisráðuneytið hefur hafið rannsókn á málinu. 

Í yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins segir að fjórir bílar ferðamanna hafi fyrir misskilning orðið fyrir árásum lögreglunnar. Þar kemur fram að árásin átti sér stað í gær á svæði sem ferðamönnum er ekki heimilt að fara um. Ferðamennirnir voru á leið í Western-eyðimörkina þar sem þeir ætluðu að tjalda, er ráðist var á þá. 

Innanríkisráðuneytið segir að öryggissveitir hafi verið að leita að íslömskum skæruliðum í eyðimörkinni og hafi komið auga á fjóra bíla sem voru utan vegar. Skotið var á bílana úr þyrlu. 

Ferðamálaráðuneytið segir að ferðaþjónustuaðilinn, sem fór með fólkið út í eyðimörkina, hafi ekki haft tilskilin leyfi. Samkvæmt heimildum BBC hafði fólkið leyfi til ferðarinnar og hafði meira að segja lögreglufylgd. 

Western-eyðimörkin er vinsæl meðal útlenskra ferðamanna. Hún er einnig vinsæll felustaður skæruliða. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert