Konurnar sem horfið hafa sporlaust

Auglýsing sem notuð var fyrir nokkru til að vekja athygli …
Auglýsing sem notuð var fyrir nokkru til að vekja athygli á fjölda þeirra sem hverfur sporlaust í Mexíkó á hverju ári. AFP

Þúsundir kvenna og stúlkna hverfa sporlaust í Mexíkó á hverju ári. Margar þeirra sjást aldrei aftur á lífi. Þegar foreldrar hinnar fjórtán ára gömlu Karenar áttuðu sig á því að hún væri horfin vissu þeir að tíminn væri naumur, þeir yrðu að finna hana sem fyrst. 

Í fréttaskýringu BBC um málið segir að móðir stúlkunnar, Elizabeth, hafi fljótt eftir hvarf dóttur sinnar áttað sig á því að eitthvað hræðilegt hefði gerst. 

„Ég bara vissi það. Ég fann ótta sem ég hafði aldrei upplifað áður. Ég leitaði um allar götur, hringdi í vini og ættingja, en enginn hafði séð hana.“ Foreldrana grunaði strax að stúlkunni hefði verið rænt. 

Karen hvar í apríl árið 2013. En hún er aðeins ein af mörg þúsund stúlkum sem hafa horfið sporlaust í Mexíkó-ríki, þar sem höfuðborg landsins er að finna. 

1.238 konur og stúlkur hurfu í ríkinu árin 2011 og 2012 en nýrri tölfræði er ekki hægt að nálgast. Af þessum konum voru 53% yngri en sautján ára. Engar opinberar upplýsingar eru til um hversu margar finnast á lífi, hversu margar finnast látnar og hversu margra er því enn saknað. Á síðasta áratug hafa að minnsta kosti 2.228 konur verið myrtar í ríkinu. 

Elizabeth tilkynnti um hvarf dóttur sinnar þremur tímum eftir að það uppgötvaðist. En lögreglan hóf ekki að rannsaka málið fyrr en hún hafði verið týnd í þrjá sólarhinga. Foreldrarnir hófu því sjálfir að rannsaka málið. Það fyrsta sem þau gerðu var að skoða tölvu dóttur sinnar. 

Í ljós kom að hún hafði stofnað Facebook-síðu sem foreldarnir vissu ekkert um. Þar átti hún 4.000 „vini“. Foreldrunum fannst eins og þeir væru að leita að nál í heystakki en það var þó einn maður sem vakti sérstaka eftirtekt. Á myndum var hann með fáklæddum stúlkum og með vopn. 

Foreldrarnir urðu uggandi. Þau sögðu að maðurinn hefði skrifast á við dóttur þeirra, sagt að hann ætlaði að hitta hana fljótlega. Hann hefði sett sig í samband við hana nokkrum dögum áður en hann hvarf og gefið henni farsíma. 

Í frétt BBC kemur fram að á hverju ári eru um 20.000 menn í Mexíkó seldir mansali. Meirihlutinn er þvingaður í vændi. 

Foreldrar Karenar litu svo á að þau hefði aðeins stuttan tíma til að koma í veg fyrir það að dóttir þeirra yrði flutt úr landi. Þau þrýstu á lögregluna að lýsa eftir henni strax og settu upp auglýsingar um hvarf hennar á hvert strætisvagnaskýli í Mexíkó-borg. Fljótlega komust þau í sjónvarpið til að segja söguna og lýsa eftir henni.

Þetta skilaði árangri. Sextán dögum eftir að Karen hvarf var henni ekið að yfirgefinni strætisvagnamiðstöð og skilin þar eftir ásamt annarri stúlku sem hafði einnig verið saknað. Umræðan um hvarf Karenar hafði hrætt glæpamennina sem höfðu hana í haldi. Höfuðpaurinn hafði ætlað sér að flytja hana til New York. Hann náðist aldrei. 

„Maðurinn lofaði henni frægð og frama og nóg af peningum. Hann náði vel til hennar og vegna sakleysis hennar skyldi hún ekki hættuna sem hún var í,“ segir faðirinn, Alejandro.

Foreldrar Karenar hafa allar götur síðar aðstoðað aðra foreldra við að hafa uppi á dætrum sínum. Þannig hafa þau orði til þess að 21 barn hefur fundist. Þau eru nú með í höndunum fleiri möppur með sambærilegum málum. Dæmi er um að allt niður í fimm ára börn hafi horfið. 

Ættingjar og vinir fólks sem hefur horfið sporlaust í Mexíkó …
Ættingjar og vinir fólks sem hefur horfið sporlaust í Mexíkó komu saman til samstöðufundar í sumar. Fleiri þúsund Mexíkóa er saknað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert