Fannst eftir 24 ár á flótta

Paul Jackson
Paul Jackson Bandaríska lögreglan

Bandarískur maður sem hefur verið á flótta í 24 ár var handtekinn í Mexíkó í gær. Maðurinn er sakaður um að hafa rænt konum og nauðgað þeim.

Fjallað var um mál Pauls Jacksons nýverið á CNN í þættinum The Hunt With John Walsh. Hann var handtekinn í Guadalajara þar sem hann hefur búið að undanförnu. Jackson var þekktur í Mexíkó undir nafninu Paul Bennett Hamilton, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum yfirvöldum.

Jackson var ákærður í Washington County, Oregon fyrir nauðgun og mannrán í júní 1990. Hálfbróðir hans, Vance Roberts, var einnig ákærður í málinu. Þeir voru báðir látnir lausir gegn tryggingu á meðan beðið var eftir að réttarhöldin færu fram. En í febrúar 1991 flúðu þeir báðir. Roberts gaf sig fram eftir fimmtán ár á flótta. Hann var síðar dæmdur í 108 ára fangelsi. 

Þáttastjórnandi CNN, John Walsh, sem hefur eytt meira en áratug í að aðstoða yfirvöld við leit að eftirlýstum einstaklingum lýsti Jackson í þættinum sem einum af þeim sem yfirvöld vildu helst fanga.

„Hann og siðspillti viðbjóðslegi bróðir hans, rændu konum á götum úti og héldu þeim föngnum á heimili sínu - pyntuðu þær, læstu þær inni í skáp, héldu þeim eins og nútíma þrælum,“ segir hann.

Andrea Hood var ein þessara kvenna. Hún var aðeins 17 ára þegar henni var rænt af  Jackson og Roberts. Í tvo daga var hún pyntuð, nauðgað ítrekað og hlekkjuð við rúm. Þeir vildu að hún læsi bók um undirgefnar konur og játaði hún því. Þess vegna losuðu þeir hlekkina svo hún gæti flett blaðsíðum bókarinnar. En um leið og þeir fóru út úr herberginu náði hún að losa sig og notaði byssu til þess að brjóta rúðu og forðaði sér. „Ég hljóp niður götuna grátandi í örvæntingu útötuð í blóði,“ sagði hún í þætti John Walsh nýverið á CNN.

Tveimur árum áður hafði Michaelle Dierich upplifað nánast sömu hluti af hálfu bræðranna. Þegar réttarhöldin yfir Roberts fóru fram lýsti hún þeim pyntingum sem hún þurfti að upplifa. 

Tæpum áratug eftir að hálfbróðir hans gafst upp á flóttanum var Jackson handtekinn á leið til vinnu í raftækjaverslun. Talið er að hann hafi búið í Mexíkó um árabil. Bandarísk yfirvöld segja að þáttur Walsh hafi haft mikil áhrif á að Jackson fannst því ábending barst eftir að þátturinn var sýndur um hvar hann væri að finna.

Frétt CNN

Upplýsingar um þá bræður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert