Réðust á íslamska uppreisnarmenn

Mynd sem rússneska varnarmálaráðuneytið birti í gær sem er sögð …
Mynd sem rússneska varnarmálaráðuneytið birti í gær sem er sögð sýna loftárásir flughersins á skotmark í Sýrlandi. AFP

Rússar héldu loftárásum sínum í Sýrlandi áfram í nótt. Sjálfir segjast þeir hafa látið til skarar skríða gegn Ríki íslams en heimildarmaður AFP-fréttastofunnar úr röðum sýrlenskra öryggissveita segir loftárásirnar hafa beinst að bandalagi íslamskra uppreisnarmanna sem er algerlega andsnúið Ríki íslams.

AFP hefur eftir heimildarmanni sínum að Rússar hafi ráðist á bækistöðvar Landvinningahersins í Jisr al-Shughur og Jabal al-Zawiya í Idlib-héraði. Herinn hefur lagt undir sig allt héraðið og sótt fram í átt að Latakia, höfuðvígi Bashar al-Assad, forseta. Samtökin eru harðir andstæðingar Ríkis íslams sem Rússar segjast þó beina spjótum sínum að. Innan þeirra raða eru meðal annars systursamtök al-Qaeda.

Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Rússlands er því haldið fram að rússneskar herþotur hafi varpað sprengjum á fjögur skotmörk sem tengjast Ríki íslams, þar á meðal stjórnstöð samtakanna og vopnageymslu. Þá er því haldið fram að bílsprengjuverksmiðja norðan af borginni Homs hafi verið sprengd upp.

Loftárásir Rússa í Sýrlandi hófust í gær en Assad forseti hafði óskað eftir hernaðaraðstoð þeirra. Rússnesk stjórnvöld hafa sagst vera að leggja baráttunni gegn Ríki íslams lið en strax í gær komu fram ásakanir um að árásir þeirra hafi alls ekki beinst að hryðjuverkasamtökunum heldur að uppreisnarmönnum sem berjast gegn Assad og eru jafnvel óvinir Ríkis íslams.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert