„Ljúkum þessum af,“ voru síðustu orð Alfredo Prieto áður en hann var tekinn af lífi í Virginíu ríki í gærkvöldi.
Prieto var dæmdur til dauða í Virginíu árið 2010 fyrir morðið á Rachael Raver, 22 ára, og unnusta hennar Warren Fulton III, fyrir rúmum tveimur áratugum. Prieto, sem er innflytjandi frá El Salvador, hafði þá verið á dauðadeild í Kaliforníu fyrir nauðgun og morð á fimmtán ára gamalli stúlku. Yfirvöld í Kaliforníu ákváðu að senda hann til Virginíu þar sem líklegra væri að þar yrði hann tekinn af lífi heldur en í Kaliforníu. Talið er að hann hafi myrt sex til viðbótar í Kaliforníu og Virginíu en hann var aldrei saksóttur fyrir þau morð þar sem hann hafði þegar verið dæmdur til dauða. Hann er einnig talinn hafa nauðgað að minnsta kosti fjórum fórnarlamba sinna.
Samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálayfirvöldum var Prieto úrskurðaður látinn klukkan 21:17 að staðartíma, klukkan 1:17 í nótt að íslenskum tíma. Hann var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu sem fengin var frá fangelsismálayfirvöldum í Texas.