Flugstjóri lést í miðju flugi

Vélin lenti heilu og höldnu.
Vélin lenti heilu og höldnu. AFP

Flugstjóri farþegavélar American Airlines veiktist og lést í miðju næturflugi frá Phoenix til Boston í Bandaríkjunum. Talskona flugfélagins hefur staðfest þetta.

Aðstoðarflugmaður tók við og tókst honum að lenda vélinni örugglega í Syracuse í New York-ríki. Þetta kemur fram á vef BBC. Vélin tók á loft rétt fyrir miðnætti í gær að staðartíma.

Talskonan segir að menn séu miður sín og hugur þeirra sé hjá fjölskyldu og samstarfsmönnum flugstjórans. Hún segir ennfremur að flugstjórinn hafi virst vera veikur meðan á fluginu stóð. Það varð til þess að ákveðið hafi verið að fljúga vélinni til Syracuse. 

Ný áhöfn var send þangað til að fljúga með farþegana til Boston, en þeir komu þangað síðdegis að staðartíma í dag. Talskonan segir að menn hafi aldrei óttast  að geta ekki lent vélinni örugglega. 

„Við erum vel þjálfuð í að takast á við svona atvik,“ sagði hún. „Og þess vegna eru fleiri en einn flugmaður í flugstjórnarklefanum,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert