Leggja fram drög að loftslagssamningi

Hækkandi yfirborð sjávar vegna hnattrænnar hlýnunar er talið valda því …
Hækkandi yfirborð sjávar vegna hnattrænnar hlýnunar er talið valda því að flóð eins og nú ganga yfir Flórída í Bandaríkjunum verða algengari. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út ný og styttri drög að samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum sem semja á um í París í desember. Kjarni samkomulagsins hefur nú verið styttur úr 90 blaðsíðum í 20. Þar er kveðið á um að hlýnun jarðar verði takmörkuð við 2°C miðað við fyrir iðnbyltingu.

Umfangsmikilla aðgerða er þörf til þess að ná markmiðinu um 2°C og náðu upphaflegu drögin að samkomulagi 90 blaðsíðum. Til þess að auðvelda þjóðarleiðtogum undirbúning fyrir samningaviðræðurnar var ákveðið að stytta textann niður í aðeins 20 síður með þriggja blaðsíðna viðauka um hvernig þjóðir heims geta dregið frekar úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum fyrir árið 2020.

Þó að kveðið sé á um að hlýnunin verði takmörkuð við 2°C, og jafnvel 1,5°C, sem vísindamenn segja nauðsynlegt þar sem meiri hlýnun hefði í för með sér hamfarakennd veðurfarsáhrif og hækkun yfirborðs sjávar segir enn ekkert í drögunum um hversu mikið þjóðir heims ætla að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum né við hvaða tímabil samdrátturinn verður miðaður.

Síðasti undirbúningsfundurinn síðar í þessum mánuði

Í drögunum er einnig kveðið á um að ríki þurfi að gera ráðstafanir til að búa sig undir afleiðingar loftslagsbreytinga og að snauðari þjóðir sem skaðist af völdum þeirra eigi rétt á stuðningi við það. Skipting kostnaðarins verður líklega eitt helsta álitamálið á leiðinni til samkomulags. Þróunarríki vilja fá aðstoð frá iðnríkjunum til að aðlagast breyttum heimi sem er fyrst og fremst tilkominn vegna losunar síðarnefndu ríkjanna undanfarna öld.

Síðasti samningafundur fyrir loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna í París í desember fer fram í Bonn 19. október. Markmiðið hefur verið að ganga frá samkomulagi fyrir fundinn í desember til að forðast það öngstræti sem viðræður lentu í á loftslagfundinum í Kaupmannahöfn árið 2009. 

Frétt The Guardian af nýju samningsdrögunum SÞ í loftslagsmálum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert