Flugstjórinn fékk hjartaáfall

AFP

Flugstjóri sem veiktist og lést í miðju næturflugi American Airlines aðfaranótt mánudags hét Michael Johnston. Hann var 57 ára gamall. Talið er að hann hafi látist af völdum hjartaáfalls.

Talsmaður flugfélagsins greindi frá þessu í dag. Alls voru fimm í áhöfn og 147 farþegar um borð í vélinni þegar Johnston veiktist, en vélin var að fljúga frá Phoenix til Boston í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Aðstoðarflugmaður tók við stjórninni og neyðarlenti vélinni í Syracuse í New York-ríki. 

Eiginkona flugstjórans sagði í samtali við bandaríska sjónvarpsstöð að hún hefði fengið þær upplýsingar að Johnston hefði líklega látist af völdum hjartaáfalls. Hann gekkst undir hjartaaðgerð árið 2006. 

Hann var látinn þegar læknar tóku á móti honum á flugvellinum í Syracuse. 

Farþegar um borð í vélinni segja að þeir hafi fundið fyrir því að vélin hafi lækkað flugið skyndilega auk þess sem þeir hafi fundið fyrir ókyrrð um stund. Í framhaldinu hafi verið tilkynnt að flugstjórinn hafi veikst.

Önnur áhöfn upplýsti svo farþegana um andlát flugstjórans þegar verið var að fljúga með þá til Boston.

Flugstjóri lést í miðju flugi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert