Samið um fríverslun við Kyrrahafið

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

„Við getum ekki látið ríki eins og Kína semja leikreglurnar fyrir hagkerfi heimsins. Við þurfum að skrá þessar reglur, opna nýja markaði fyrir bandarískar vörur á sama tíma og gerðar eru ríkar kröfur um vernd starfsmanna og umhverfisins.“

Þetta sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í yfirlýsingu eftir að viðamikill fríverslunarsamningur var undirritaður sem tólf ríki við Kyrrahaf eiga aðild að. Viðræður um samninginn hafa staðið yfir undanfarin ár en aðild að honum eiga auk Bandaríkjanna, Mexíkó, Chile, Nýja Sjáland, Ástralía, Kanada, Japan, Malasía, Singapúr, Perú, Víetnam og Brúnei. Kína er ekki aðili að samningnum. Samningurinn nær til um 40% af hagkerfi heimsins samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com.

Obama bíður erfitt verkefni við að koma fríverslunarsamningnum í gegnum Bandaríkjaþing en bæði er andstaða við samninginn í röðum demókrata og repúblikana. Þá hafa nokkrir frambjóðendur í forvali vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum á næsta ári lagst gegn honum.

„Þetta er hræðilegur samningur fyrir Bandaríkin og ætti ekki að ná fram að ganga,“ sagði Donald Trump sem tekur þátt í forvali Repúblikanaflokksins. Bernie Sanders, helsti andstæðingur Hillary Clinton í forvali demókrata hefur sagt að fríverslunarsamningurinn sé „hörmulegur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert