75 særðir á einum degi

Forsætisráðherra Ísraels hefur beðið þjóð sína um að gæta „hámarks varúðar“ í ljósi átaka á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna síðustu daga. Samkvæmt tilkynningu frá Rauða hálfmánanum særðust að minnsta kosti 75 manns í átökum í dag sem hafa einkennst af stungu- og skotárásum.

Að sögn ísraelskar lögreglu stakk „hryðjuverkamaður“ mann fyrir utan verslunarmiðstöð í Ísrael í dag og er hann alvarlega særður. Sá grunaði er Palestínumaður frá Hebron. Hann var handtekinn stuttu eftir árásina. Aðeins nokkrum klukkustundum áður stal maður í strætisvagni riffli ísraelsks hermanns og særði hann með hníf. Sú árás átti sér stað í borginni Kiryat Gat sem er í um 48 kílómetra fjarlægð frá Jerúsalem. Í tilkynningu frá Israel Defense Forces kemur fram að hermenn hafi elt hinn grunaða árásarmann og skotið hann til bana.

Seinna sama dag skaut Ísraelskur maður átján ára palestínska konu eftir að hún stakk hann í miðborg Jerúsalem. Báðir aðilar voru fluttir á sjúkrahús og er konan alvarlega særð.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu hættu við áætlaða ferð sína til Þýskalands vegna óstöðugleikans í landinu. Hann fundaði með lögreglu og hernum í dag.

Eftir fundinn sagði hann á blaðamannafundi að þjóðin væri stödd í miðri „bylgju hryðjuverka“ og að bætt hafi verið við lögreglu- og herlið vegna þess.

Um 970 Palestínumenn hafa særst í átökum við Ísraelsher síðan á laugardaginn samkvæmt upplýsingum frá Rauða hálfmánanum. Af þeim voru 66 skotnir.

Samkvæmt frétt NBC snýst þessi ólga að miklu leyti um ágreining vegna Al-Aqsa moskunnar í Jerúsalem. Bæði múslímar og gyðingar nota staðinn til bænahalds og telja margir Palestínumenn að Ísrael sé að reyna að styrkja áhrif gyðinga á svæðinu. Ísraelsmenn hafa neitað því.

Forseti Ísraels Reuven Rivlin hefur fordæmt þær ásakanir og kallað þær lygar. „Þeir sem vilja breyta þessum harmleik í trúarstríð eru með blóð á sínum höndum,“ sagði hann í dag.

Palestínumenn kasta steinum að ísraelskum hermönnum á Vesturbakkanum í dag.
Palestínumenn kasta steinum að ísraelskum hermönnum á Vesturbakkanum í dag. AFP
AFP
Ísraelskir hermenn handsama Palestínumann á Vesturbakkanum.
Ísraelskir hermenn handsama Palestínumann á Vesturbakkanum. AFP
Palestínskur mótmælandi í Austur-Jerúsalem.
Palestínskur mótmælandi í Austur-Jerúsalem. AFP
Ísraelskir landamæraverðir í Gömlu borginni í Jerúsalem í dag.
Ísraelskir landamæraverðir í Gömlu borginni í Jerúsalem í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert