Rétt að taka ekki upp evruna

AFP

Mandelson lávarður hefur viðurkennt að tilgangslaust væri fyrir Bretland að taka upp evruna í dag en hann var áður ötull talsmaður þess að það yrði gert. Haft er eftir Mandelson, sem er fyrrverandi ráðherra og þingmaður breska Verkamannaflokksins, í frétt Daily Telegraph að það væri ekki lengur raunhæft að evran yrði tekin upp í Bretlandi.

Fram kemur í fréttinni að Mandelson hafi síðast fyrir ári kallað eftir því að Bretar tækju upp evruna, en ummælin nú féllu á árlegri ráðstefnu bresku samtakanna Institute of Directors þar sem hann tókst á við Lawson lávarð sem er fyrrverandi ráðherra og þingmaður breska Íhaldsflokksins. Lawson sagðist fagna sinnarskiptum Mandelsons.

Rifjað er upp að Mandelson hafi árið 2009 lofað evruna og lýst henni sem skjóli fyrir evruríkin fyrir alþjóðlegu fjármálakrísunni. Lawson sagði Mandelson hafa haft rangt fyrir sér þegar hann hafi spáð miklum hörmungum ef Bretar tækju ekki upp evruna. Hann hefði líka rangt fyrir sér þegar hann segði að það sama gerðist ef Bretar segðu skilið við Evrópusambandið.

„Við munum ekki gerast aðilar að evrunni, en við verðum að tryggja að þeir sem móta stefnuna og reglurnar á evrusvæðinu hafi ekki áhrif á aðra á innri markaðinum,“ sagði Mandelson og bætti við: „Evrópusambandið hefur reynt að gera of mikið og verður að gera minna og gera það betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert