Sprengjuhótun í Noregi

Frá Fredrikstad.
Frá Fredrikstad. Ljósmynd/ Wikipedia Commons

Lögreglan í Noregi hefur lokað og rýmt svæðið í kringum Quality hótelið í borginni Fredrikstad í kjölfar sprengjuhótunnar. Engin hreyfing er á umferð í bænum og farið hefur verið með fólk sem var á svæðinu á hótel í nágreninu.

Svæðið hefur verið lokað síðan um klukkan þrjú í dag á norskum tíma að því er NRK greinir frá en um það leiti barst sprengjuhótunin í gegnum síma. Sprengjuhópur frá lögreglunni í Osló er nýkomin á staðinn.

Engar upplýsingar hafa borist NRK um ástæðu hótunarinnar en starfsfólk hótelsins hefur ekki viljað gefa upp hvort hún tengist ákveðnum hópum eða viðburðum á hótelinu.

Uppfært 15:29

Lögreglan hefur beðið fólk sem gæti hafa séð karlmann hringja úr tíkallasíma við Løkkegata í Fredrikstad um að gefa sig fram.

„Lögreglan fékk hótunina gegn hótelinu kl. 14:39. Hótunin barst í gegnum síma til neyðarlínunnar,“ hefur NRK eftir yfirmanni aðgerða á svæðinu Øystein Stavdal Paulsen. Lögreglan segir símtalið hafa borist úr tíkallasíma nálægt strætisvagnabiðstöð í miðborg Fredrikstad, nokkur hundruð metrum frá hótelinu.

Uppfært 16:35

„Það sem er í gangi núna er að sprengjusveitin rannsakar þá hluta hótelsins sem við teljum nauðsynlegt að rannsaka,“ segir talsmaður lögreglu, Thor Arild Hansen, samkvæmt NRK.

Hann segir ekki ljóst hver standi á bakvið hótunina en að fólk sem kunni að hafa upplýsingar um manninn eða það sem fram fór við strætisvagnabiðstöðina klukkan 14:39 að staðartíma sé beðið um að hafa samband við lögreglu. Segir hann engar upplýsingar liggja fyrir um ástæður hótunarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert