„Hælisreglurnar eru úreltar“

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna og starfsbræður þeirra frá ríkjum sem eiga landamæri að Sýrlandi munu í dag ræða flóttamannavandann en í gær lýsti Angela Merkel, kanslari Þýskalands, því yfir að hælisreglur sambandsins væru úreltar.

Fundurinn verður haldinn í Lúxemborg en meðal þeirra sem taka þátt eru fulltrúar ríkja eins og Jórdaníu, Líbanon, Tyrklandi og ríki á Balkanskaganum sem hafa tekið á móti gríðarlegum fjölda flóttafólks frá Sýrlandi undanfarin misseri.

Merkel flutti ræðu á Evrópuþinginu í gær með forseta Frakklands, Franço­is Hollande. Afar sjald­gæft er að leiðtog­ar ríkj­anna ávarpi sam­an Evr­ópuþingið en það hef­ur aðeins einu sinni gerst, árið 1989 þegar Franço­is Mitterand, for­seti Frakk­lands, og Helmut Kohl, kansal­ari Þýska­lands, gerðu það. Í ræðu sinni sagði Merkel að þörf væri á nýjum starfsháttum varðandi hælisumsækjendur í ríkjunum 28 þannig að þeir skiptust af sanngirni á milli ríkja.

Merkel og Hollande hvöttu ríki ESB til þess að taka á flóttamannastraumnum í sameiningu.  Merkel segir að Dyflinnarákvæðið hafi verið sett í góðum ásetningi á sínum tíma en það eigi ekki við lengur.  Það sem þurfi er sameining Evrópu, hugrekki og samstarf sem Evrópa hefur alltaf sýnt þegar þörf er á.

Flestir þeira sem flýja til Evrópu vilja hæli í Þýskalandi en talið er að á milli 800 þúsund og ein milljón óski eftir hæli þar í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert