Sundrung í sænskum stjórnmálum

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, er ekki sáttur.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, er ekki sáttur. AFP

Töluverð óvissa ríkir nú í sænskum stjórnmálum eftir að flokkur Kristilegra demókrata sagði sig frá desembersamkomulaginu svokallaða, en það varð til þess að borgaraflokkarnir í stjórnarandstöðunni gengu einnig út. Staðan er tvísýn og er útlit fyrir að boðað verði til nýrra kosninga.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir þetta svívirðu. 

Í desember sl. náðist sam­komu­lag milli stjórn­ar­flokk­anna og borg­ara­flokk­anna í stjórn­ar­and­stöðinni um að axla í sameiningu ábyrgð á stjórn lands­ins og að fá fjárlagafrumvarpið samþykkt í kjölfar pólítískrar upplausnar sl. haust. 

Forystumenn Kristilegra demókrata, þar á meðal formaðurinn Ebba Busch-Thor, vildu standa við samkomulagið, en þau urðu undir í kosningu á flokksþingi síðdegis í gær. 

„Desembersamkomulagið er nú aðeins innskot í sænskum stjórnmálum,“ sagði Sara Skyttedal þegar niðurstaðan lá fyrir í gær. Hún er formaður ungra Kristilegra demókrata sem börðust gegn samkomulaginu. 

„Við erum ekki reiðubúin, á þessu kjörtímabili og því næsta, að vera einhverskonar stuðningssveit Stefans Löfven,“ sagði Anders Andersson sem barðist gegn samkomulaginu á flokksþingi Kristilegra demókrata.

„Við sættum okkur ekki við að vinstrisinnaðri, sósíalískri stefnu verði þröngvað í gegnum sænska þingið,“ bætti hann við. 

Kosningin varð til þess að aðrir flokkar sögðu sig frá samkomulaginu. 

Löfven sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði að það væri svívirðilegt hvernig skriflegt samkomulag hefði verið brotið. 

Hann segir Svíþjóð standa frammi fyrir meiriháttar áskorunum. Neyðarástand ríki í skólakerfinu og atvinnuleysi sé mikið. Taka verði á þessum málum af festu sem og flóttamannavandanum. Hann segir að flokkurnn eigi að standa við gefin loforð og skapa ekki annað pólítískt þrátefli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert