Taldar hafa verið sjálfsmorðssprengjur

AFP

Hvíta húsið hefur nú fordæmt sprengjuárásir sem gerðar voru í Ankara, höfuðborg Tyrklands í dag. Að minnsta kosti 86 létu lífið og tæplega 200 særðust. Ned Price, talsmaður þjóðarör­ygg­is­ráðs Hvíta húss­ins kallaði árásina „hræðilega hryðjuverkaárás“. Varað er við myndum sem fylgja fréttinni. 

„Sú staðreynd að þessi árás var gerð á friðarsamkomu undirstrikar hversu miklir ódæðismenn standa á bakvið hana og það minnir okkur á þörfina á að takast á við öryggisógnir á svæðinu,“ sagði í yfirlýsingu Price.

Talið er að um tvær sjálfsmorðssprengjur hafi verið að ræða í morgun en sprengjurnar sprungu nálægt aðallestarstöð Ankara. Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu sagði í dag að hópur aðgerðarsinna hliðhollir Kúrdum hafi safnast saman á friðarsamkomunni.

Líklegt er að árásirnar muni mynda spennu í landinu, sérstaklega þegar litið er til áætlaðra kosninga þar 1. nóvember næstkomandi. Ríkisstjórninni hefur verið harðlega mótmælt síðustu misseri vegna árása þeirra á Kúrda.

Davutoglu sagði á blaðamannafundi í dag að árásin i í dag hafi ekki beinst að ákveðnum hópi heldur þjóðinni allri. „Þegar við horfum fram á kosningar ræðst svona árás á lýðræðið og lýðræðisleg réttindi og frelsi,“ sagði hann. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu. 

Davutoglu sagði að allt yrði gert til þess að refsa þeim sem beri ábyrgð á „þessu sviksamlega fjöldamorði“ og kallaði gerendurna „óvini mannkynsins“.

Að sögn forsætisráðherrans hafa engin hryðjuverkasamtök lýst yfir ábyrgð á sprengjuárásinni. Hann sagði þó að Ríki íslams og PKK, upp­reisn­ar­hóp­ur tyrk­neskra Kúrda, væru meðal þeira hópa sem gætu framið svona árás. 

Tæplega 200 særðust.
Tæplega 200 særðust. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert