Ellilífeyrisþegi á yfir höfði sér 360 vandarhögg

Löggjöfin í Sádi-Arabíu byggir á saría lögum og er neysla …
Löggjöfin í Sádi-Arabíu byggir á saría lögum og er neysla áfengis stranglega bönnuð. Konur mega ekki keyra og refsingin fyrir samkynhneigð og hórdóm er dauðadómur. AFP

Breskur ellilífeyrisþegi á yfir höfði sér allt að 360 vandarhögg eftir að hafa verið gripinn með heimabrugg í Sádi-Arabíu. Fjölskylda mannsins segir í viðtali við BBC að refsingin myndi ríða honum að fullu.

Karl Andree, 74 ára, hefur þegar dvalið í meira en ár í fangelsi í Sádi-Arabíu eða allt frá því trúarlögreglan handtók hann í fyrra.

Dóttir hans, Kirsten Piroth, segir í viðtali við BBC að faðir hennar, sem hefur fengið krabbamein þrisvar, muni aldrei lifa af hýðingar.

Breska utanríkisráðuneytið segir að það sé verið að reyna að fá hann lausan úr haldi eins fljótt og auðið er.

Áfengi er bannað í Sádi-Arabíu og að sögn Piroth var faðir hennar að flytja heimabrugg í bíl sínum þegar hann var stöðvaður af lögreglu í ágúst 2014.

Andree var dæmdur í fangelsi í eitt ár og Piroth segir að fjölskyldan hafi trúað því að hann þyrfti ekki að afplána vandarhöggin vegna þess hversu aldraður hann er og slæmur til heilsunnar. En nú virðist sem ætlunin sé að framfylgja refsingunni en Andree hefur búið í Sádi-Arabíu í aldarfjórðung. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert