Nektarmyndum úthýst

Fyrirsætan Kate Moss var á forsíðu 60 ára afmælisútgáfu Playboy …
Fyrirsætan Kate Moss var á forsíðu 60 ára afmælisútgáfu Playboy árið 2013. Ljósmynd/Playboy

Playboy tímaritið ætlar að hætta að birta nektarmyndir af konum en þetta er liður í endurskipulagningu á blaðinu.

Bandarískir eigendur tímaritsins segja að netið hafi gert nekt gamaldags og að klámblöð séu ekki lengur fjárhagslega hagkvæm - það er þau höfða ekki til auglýsenda, segir í frétt New York Times.

Vegur Playboy hefur rýrnað jafnt og þétt og er svo komið að blaðinu er dreift í 800 þúsund eintökum samanborið við 5,6 milljónum eintaka á áttunda áratugnum.

Blaðið mun samt sem áður áfram birta myndir af konum í ögrandi stellingum en þær verða ekki allsnaktar.

Þessi ákvörðun var tekin á fundi stjórnenda Playboy, sem meðal annars var sóttur af stofnanda og aðalritstjóra Playboy, Hugh Hefner. Framkvæmdastjóri Playboy útgáfunnar, Scott Flanders, segir í samtali við NYT að tímaritið, sem hefur komið út frá árinu 1953, hafi lotið í gras fyrir breytingum sem það var brautryðjandi að á sínum tíma.

Baráttan hafi unnist, nú séu lesendur aðeins einum smell frá því að geta skoðað klámmyndir ókeypis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert