Vill skipta um kyn vegna mismununar

Mirjana Stanojcic hyggst breyta um kyn til að mótmæla lögum …
Mirjana Stanojcic hyggst breyta um kyn til að mótmæla lögum sem mismuna konum. AFP

Serbneskur læknir hefur valið róttæka leið til að mótmæla nýrri löggjöf og heitið því að gangast undir kynskiptiaðgerð, en samkvæmt fyrrnefndri löggjöf verða konur sem starfa hjá hinu opinbera neyddar til að fara á eftirlaun 60 ára, á meðan karlar fara á eftirlaun 65 ára.

Yfirmenn Mirjönu Stanojcic, 64 ára, tilkynntu henni nýverið að hún yrði að hengja upp hvíta sloppinn í október, þegar löggjöfin tekur gildi. Löggjöfin var samþykkt í júlí síðastliðnum og miðar að því að draga úr útgjöldum hins opinbera, en áður var báðum kynjum frjálst að vinna eins lengi og þeim þóknaðist.

„Ég á karlkyns kollega á sama aldri en mér hefur verið sagt að fara á eftirlaun á meðan hann heldur áfram að vinna,“ sagði Stanojcic í samtali við AFP. „Ég tók þá ákvörðun að verða karlmaður og halda áfram störfum í samræmi við lögin.“

Stanojcic hefur vakið töluverða athygli í Serbíu eftir að hún sótti um að fá að hefja ferlið sem yfirleitt er kallað „kynleiðréttingarferli“. Árangurinn hefur ekki staðið á sér, en stjórnarskrárdómstóll landsins hefur ákveðið að fresta gildistöku laganna þar til hann hefur skorið úr um lögmæti þeirra.

Stanojcic segist engu að síður hyggjast halda áfram með ferlið, þar sem óvíst sé hver niðurstaða dómsins verður. „Þetta er eina leiðin til að berjast gegn þessari mismunun,“ segir hún, en vert er að geta þess að fyrirætlun læknisins hefur mætt gagnrýni meðal þeirra sem berjast fyrir réttindum transfólks. Segja þeir að umsókn Stanojcic geri lítið úr vanda þeirra sem þjást af kynáttunarvanda.

Uppfært kl. 17.05:

Vegna ábendingar frá Trans Ísland skal áréttað að þrátt fyrir að Stanojcic hafi lýsti því yfir að hún hyggist skipta um kyn í mótmælaskyni, mun hún ekki gangast undir kynleiðréttingaraðgerð. Kynleiðréttingaraðgerð kallast sú aðgerð sem þeir gangast undir sem greinst hafa með kynáttunarvanda, sem er læknisfræðileg skilgreining.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert