Forðast forsetann eins og pestina

John Boehner (t.h.) hefur ekki átt sjö dagana sæla í …
John Boehner (t.h.) hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti þingforseta. Kevin McCarthy (t.v.) sá sér þann kost vænstan að gefa ekki kost á sér. AFP

Eftir að John Boehner steig til hliðar sem forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í síðasta mánuði var búist við harðri valdabaráttu um hver tæki við af honum innan Repúblikanaflokksins. Fram að þessu virðist barátta flokksmanna hins vegar fyrst og fremst snúast um að koma sér undan að gegna embættinu.

Boehner tilkynnti bókstaflega syngjandi sæll og glaður 25. september (sjá myndband hér að neðan) að hann ætlaði að stíga úr forsetastólnum sem hann hefur setið á í fjögur ár í lok þessa mánaðar. Eftir að valið á eftirmanni hans reyndist vandasamara en hann gerði ráð fyrir samþykkti hann þó að sitja áfram í embættinu þar til hann hefur verið kjörinn.

Síðan þá hefur undarlegur stólaleikur hafist á meðal repúblíkana þar sem markmiðið virðist vera að sitja ekki uppi sem forseti fulltrúadeildarinnar. Upphafleg leit út fyrir að Kevin McCarthy, leiðtogi meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni, væri augljós eftirmaður Boehner. Öllum að óvörum tilkynnti hann hins vegar í síðustu viku að hann gæfi ekki kost á sér.

Þá hófu menn að leita logandi ljósi að öðrum hugsanlegum valkostum í embættið. Nafn Paul Ryan, varaforsetaefnis flokksins í forsetakosningunum árið 2012, var nefnt til sögunnar en hann afþakkaði pent að bjóða sig fram. Bandarískir fjölmiðlar höfðu eftir vini Ryan að ástæðan væri sú að hann „væri ekki fjandans fábjáni“.

Orsök þess að enginn repúblikani með snefil af sjálfsvirðingu vill taka við sem þingforseti er miklir flokkadrættir innan flokksins í kjölfar uppgangs Teboðshreyfingarinnar. Hluti af þingflokknum sem hallast lengst til hægri hefur þannig verið algerlega mótfallinn því í grundvallaratriðum að komast að nokkurs konar málamiðlunum við demókrata í þinginu eða Barack Obama, forseta, óháð afleiðingunum.

Þannig leiddi andstaða þessa hóps þingmanna næstum því til þess að bandaríska ríkið lenti í greiðsluþroti árið 2011 og að hluta af starfsemi ríkisstofnana lá niðri í tvær vikur árið 2013. Boehner var ósammála þessari aðferðafræði stjórnarandstöðu við Obama forseta og var því eins og á milli steins og sleggju þegar hann reyndi að sætta stríðandi fylkingar innan flokksins. Þurfti hann meðal annars að leita til demókrata til þess að bakka út úr öngstrætinu sem bandarísk stjórnmál höfðu ratað í báðum fyrrnefndu tilfellanna.

Nokkrir þingmenn Frelsishóps fulltrúadeildarinnar í bandaríska þinghúsinu.
Nokkrir þingmenn Frelsishóps fulltrúadeildarinnar í bandaríska þinghúsinu. AFP

Boehner situr uppi með svartapétur í bili

Eins og kemur fram í fréttskýringu vefmiðilsins Vox þarf þingmaður að hafa 218 atkvæði á bak við sig til að verða forseti fulltrúadeildarinnar. Þessi hópur öfgasinnuðustu repúblikananna, sem kallar sig Frelsishóp fulltrúadeildarinnar (e. House Freedom Caucus) hefur hins vegar þegar lýst því yfir að hann muni greiða atkvæði gegn hverjum þeim frambjóðanda sem er of sáttfús við demókrata eða forsetann að þeirra mati.

Það þýðir að eins og stendur er enginn kandídat sem er líklegur til að ná meirihluta í kjöri til þingforseta. Frelsishópurinn, sem samanstendur af 35-40 þingmönnum, er nægilega stór til að tryggja að hófsamari repúblikanar hafa ekki nægilegan þingstyrk til að kjósa sinn eigin mann.

Á meðan svo er og engin sátt næst innan flokksins um ásættanlegan frambjóðanda situr Boehner því eftir með þann svartapétur að gegna áfram embætti þingforseta fulltrúadeildarinnar. Honum er því tæplega söngur í huga lengur.

Fréttaskýring Politico um valdabaráttu repúblikana

Fréttaskýring Vox um stöðuna í fulltrúadeildinni

Fyrri frétt mbl.is: Boehner stígur til hliðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert