Skipulagði árásina

Lögreglumenn við grunnskólann í Trollhättan í gær .
Lögreglumenn við grunnskólann í Trollhättan í gær . AFP

Upptökur öryggismyndavéla benda til þess að ungi maðurinn sem réðist á nemendur og kennara í grunnskóla í Svíþjóð í gær hafi aðeins ráðist á þá sem voru dökkir á hörund. Gögn sem fundust við húsleit á heimili hans benda til þess að honum hafi verið í nöp við útlendinga og árásin hafi verið skipulögð.

Á blaðamannafundi lögreglunnar í morgun kom fram að árásarmaðurinn, sem var 21 árs gamall, hafi gengið fram hjá hvítum nemendum í skólanum og aðeins ráðist á þá sem voru dökkir á hörund. Ellefu ára gamall nemandi og kennari liggja í valnum eftir árásina, auk árásarmannsins sjálfs.

Klæðaburður hans hafi jafnframt minnt á nasista en hann hafi þó engin þekkt tengsl við hreyfingar nýnasista. Þá bendi ekkert til annars en að hann hafi einn skipulagt árásina á Krona-grunnskólann í Trollhättan í gærmorgun.

„Þetta er skjal sem bendir skýrt til þess að árásin hafi verið skipulögð og hatursglæpur. Þetta er ákveðin tegund sjálfsmorðsbréfs,“ sagði Thord Haraldsson rannsóknarlögreglumaður á blaðamannafundinum um skjal sem fannst heima hjá árásarmanninum.

Tveir liggja enn á sjúkrahúsi eftir árásina. Ástand 41 árs gamals karlmanns er sagt alvarlegt en stöðugt en fimmtán ára gamall nemandi sé á batavegi. Í frétt Dagens Nyheter kemur fram að hann hafi komist til meðvitundar og hægt hafi verið að tala við hann.

Frétt Dagens Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert