Minnst 25 látnir eftir eldsvoða

mbl.is/Kristinn

Minnst 25 eru sagðir látnir eftir sprengingu á skemmtistað í Búkarest í Rúmeníu. Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá því að mikill eldur hafi brotist út í kjölfar sprengingarinnar, en atburðurinn er sagður hafa átt sér stað á skemmtistað að nafni Colectiv.

Til viðbótar við hina látnu eru 88 sagðir slasaðir eftir sprenginguna.

Ekki liggur fyrir hvað olli eldsvoðanum en fjölmiðlar í Rúmeníu greina frá sögusögnum þess efnis að flugeldar hafi verið sprengdir innandyra.

Fjölmargir voru inni á skemmtistaðnum þegar eldurinn braust út en talið er að um 400 manns hafi verið þar saman komnir vegna tónleika sem þar voru haldnir.

„Það myndaðist mikill troðningur þegar fólkið kom hlaupandi út úr skemmtistaðnum,“ hefur fréttastofa Reuters eftir sjónarvotti á staðnum.

Uppfært klukkan 23:25

Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, hefur birt færslu á Facebook-síðu sinni vegna eldsvoðans. Þar vottar hann meðal annars aðstandendum hinna látnu samúð sína.

„Þetta er mjög sorglegur dagur fyrir okkur öll, þjóð okkar og mig persónulega. Ég vil á þessari stundu votta fjölskyldum fórnarlambanna mína dýpstu samúð,“ segir forsetinn meðal annars í færslu sinni. Þá benti forsetinn einnig á að björgunarmenn reyni hvað þeir geta til þess að hjálpa særðum á vettvangi.

Uppfært klukkan 23:56

Vefsíða breska blaðsins Telegraph greinir frá því að sjónarvottur segist hafa séð eld læsa sig í lofti skemmtistaðarins og að skömmu síðar hafi sprenging átt sér stað með tilheyrandi þykkum reyk.

Fjölmiðlar í Rúmeníu greina nú frá því að 154 hafi verið fluttir á sjúkrahús, sumir þeirra voru fluttir þangað með leigubílum og einkabifreiðum. Eru nú 26 sagðir látnir eftir eldsvoðann.

Erlendir ferðamenn eru sagðir vera á meðal þeirra sem voru inni á skemmtistaðnum þegar eldurinn braust út. Ekki er vitað um þjóðerni þeirra að svo stöddu.

Uppfært klukkan 00:05

Heilbrigðisráðherra landsins kallar nú eftir blóðgjöfum vegna þess mikla fjölda fólks sem slasast hefur í eldinum.

Uppfært klukkan 00:09

Birst hefur myndband sem sýnir björgunarmenn hlúa að særðu fólki fyrir utan skemmtistaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert