„Fólk komst ekki út“

Tala látinna eftir eldsvoðann á skemmtistaðnum Colectiv í Búkarest í Rúmeníu er nú komin í 27 og eru hátt í 200 til viðbótar slasaðir. Forsætisráðherra landsins hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna þessa.

Greint var frá eldsvoðanum seint í gærkvöldi og þá meðal annars sagt frá sögusögnum þess efnis að flugeldar hefðu verið sprengdir inni á skemmtistaðnum. Hefur það nú fengist staðfest, samkvæmt fréttaveitu AFP, og hafa fjölmargir lýst því hvernig eldurinn náði að breiða hratt úr sér. Þá segist einn sjónarvottur hafa séð eld læsa sig í lofti skemmtistaðarins.

Fjölmargir voru inni á skemmtistaðnum þegar eldurinn braust út, en samkvæmt fréttaveitu AFP er talið að á bilinu 200 til 400 manns, flestir þeirra ungmenni, hafi verið þar saman komnir vegna tónleika. Þegar fólkið varð eldsins vart skapaðist mikil ringulreið og reyndu margir að flýja staðinn á sama tíma. Myndaðist því mikill troðningur þegar fólkið kom hlaupandi út úr húsnæðinu.

Samkvæmt fréttaveitu AFP þurftu allir þeir sem inni á skemmtistaðnum voru að hlaupa út um sömu dyrnar. Hinn útgangurinn var ekki notaður en ástæða þess liggur ekki fyrir sem stendur.

Alls létust 26 inni á skemmtistaðnum og einn á sjúkrahúsi. Af þeim tæplega 200 sem særðust voru 146 fluttir á sjúkrahús með brunasár, reykeitrun eða önnur einkenni. Tíu eru sagðir vera alvarlega slasaðir og eru ekki frekari upplýsingar gefnar um líðan þeirra.

Þá greina fjölmiðlar í Rúmeníu frá því að tveir meðlimir hljómsveitarinnar, þ.e. bassaleikari og söngvari, séu meðal þeirra sem eru alvarlega slasaðir. Erlendir ferðamenn eru einnig í hópi hinna særðu. Eru þeir meðal annars frá Þýskalandi, Spáni og Ítalíu.

Fóru ekki eftir einföldum reglum

Klaus Iohann­is, for­seti Rúm­en­íu, birti í gær færslu á Face­book-síðu sinni vegna elds­voðans þar sem hann meðal annars vott­ar aðstand­end­um hinna látnu samúð sína. Fréttaveita AFP hefur nú eftir forsetanum að inni á skemmtistaðnum hafi ekki verið farið eftir öryggisreglum. Kallar hann nú eftir skjótri rannsókn á atvikinu. 

„Ég er afar dapur en einnig misboðið að svona harmleikur geti átt sér stað í Búkarest,“ hefur AFP eftir forsetanum. „Það er í raun vart hægt að ímynda sér að svo margir einstaklingar hafi verið saman komnir inni á jafn litlum stað og að þessi harmleikur hafi átt sér stað með jafn skjótum hætti og raun ber vitni - einungis vegna þess að einföldum reglum var ekki fylgt eftir.“

Alelda á 30 sekúndum

Vitni hafa nú í fjölmiðlum lýst þeim hryllingi sem átti sér stað eftir að eldurinn braust út, en talið er fullvíst að meðlimir hljómsveitarinnar hafi fyrir slysni kveikt í skemmtistaðnum með því að skjóta upp flugeldum þar innandyra.

Sprengingar, þykkur reykur og logandi loft eru meðal þess sem vitni hafa lýst í fjölmiðlum í Rúmeníu.

„Fólk missti meðvitund, það missti meðvitund vegna reyks. Það myndaðist alger glundroði og fólk varð undir í æsingnum,“ segir ung kona í samtali við þarlenda sjónvarpsstöð. Hún var ein þeirra sem náði að koma sér út í tæka tíð.

Annað vitni segir staðinn hafa verið alelda á einungis 30 sekúndum. „Fólk komst ekki út af skemmtistaðnum því það var bara ein hurð. Troðningurinn myndaðist um leið,“ segir hann.

Yfir 500 slökkviliðs- og björgunarmenn voru sendir á vettvang til þess að hlúa að særðum. Fjölmargir þeirra sem lifðu af brunann eru með áverka víða um líkama eftir troðninginn.

Heilbrigðisráðherra landsins kallaði í gær eftir blóðgjöfum og brugðust mörg hundruð manns við kallinu. Um tíma mátti sjá langa röð fólks við sjúkrahús þar sem það beið eftir því að geta gefið blóð.

Fyrri frétt mbl.is:

Minnst 25 látnir eftir eldsvoða

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert