„Evrópusambandið getur sundrast“

Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemburg.
Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemburg. AFP

Flóttamannavandinn sem Evrópa stendur frammi fyrir gæti leitt til endaloka Evrópusambandsins og jafnvel stríðs. Þetta sagði Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemburg, í viðtali við þýsku fréttaveituna DPA í dag. Sagði hann Schengen-samstarfið, sem snýst um að fella niður landamæraeftirlit á milli aðildarríkjanna en efla það á ytri mörkum svæðisins, væri í hættu en Ísland er meðal annars aðili að samstarfinu.

„Við höfum kannski bara nokkra mánuði til þess að bjarga því. Evrópusambandið getur sundrast. Það gæti gerst gríðarlega hratt ef einangrun kemur í stað samstöðu, bæði inn á við og út á við,“ sagði Asselborn. Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að ráðherrann sé ekki fyrsti pólitíski forystumaðurinn innan Evrópusambandsins til þess að vara við því að sambandið gæti liðast í sundur. Það hafi Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu, einnig gert í síðasta mánuði. Hann hafi varað við því að það gæti gerst tækist ekki að draga úr flóttamannavandanum.

Hins vegar hafi orð Asselborns meira vægi í ljósi þess að Lúxemburg fari fram að áramótum með forsætið innan Evrópusambandsins og að landið er eitt af sex stofnríkjum forvera sambandsins. Asselborn gagnrýndi þá stjórnmálamenn harðlega sem reyndu að nota flóttamannamálið til þess að slá pólitískar keilur. Menning mannúðargilda héldi Evrópusambandinu enn sem komið er saman en þjóðerniskennd á fölskum forsendum gæti hins vegar leitt til stríðs.

Ráðherrann útskýrði að sögn Euobserver.com þó ekki nánar hvernig komið gæti til stríðs að öðru leyti en því að vísa til vaxandi spennu á Balkanskaganum líkt og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, gerði nýverið. „Þegar menn loka augunum í Svíþjóð og Þýskalandi þá veit ég ekki hvað kann að gerast á Balkanskaganum. Ég tel að ástandið sé þegar orðið gríðarlega alvarlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert