Lofar að láta af völdum í Myanmar

Thein Sein (miðju), fráfarandi forseti Myanmar.
Thein Sein (miðju), fráfarandi forseti Myanmar. AFP

Thein Sein, forseti Myanmar (áður Búrma), hefur sagst munu tryggja hnökralaus valdaskipti í landinu, eftir að flokkur Aung San Suu Kyi hlaut mikinn meirihluta atkvæða í fyrstu frjálsu kosningunum í landinu í meira en hálfa öld.

Herstjórnir og stjórnir hliðhollar hernum hafa ráðið í landinu síðustu áratugi og hefur Suu Kyi þurft að dúsa í fangelsi árum saman vegna andstöðu sinnar við herstjórnina.

Flokkur hennar, Þjóðhreyfing fyrir lýðræði, hefur þega hlotið 80% þingsæta í boði þegar aðeins fárra niðurstaðna er beðið enn. Til þess að hljóta hreinan meirihluta í þinginu þar í landi þarf meira en tvo þriðju þingsæta þar sem herinn á tilkall til fjórðungs þingsæta í báðum deildum. Talsmenn hersins hafa einnig gefið út að þeir muni lúta niðurstöðum kosninganna.

Herinn enn valdamikill

Þingið í Myanmar kýs forseta og varaforseta landsins en Suu Kyu mun ekki geta setið í stóli forseta sjálf þar sem að í stjórnarskrá Myanmar er ákvæði þar sem tekið er fyrir að einstaklingar sem eigi erlenda maka eða erlend börn gegni embættinu. Almennt er litið svo á að ákvæðið hafi verið sérsniðið til höfuðs Suu Kyi en hún hefur sagst munu stjórna samt sem áður, þó hún verði ekki formlega forseti.

Herinn í Myanmar hefur neitunarvald yfir öllum stjórnarskrárbreytingum auk þess að stjórna lykilembættum í landinu svo Suu Kyi mun þurfa að vinna með herforingjum landsins enn um sinn.

Aung San Suu Kyi flytur ræðu eftir kosningarnar.
Aung San Suu Kyi flytur ræðu eftir kosningarnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert