Kolefnisgjald ekki á dagskránni í París

Mengunarmökkur yfir Los Angeles í Kaliforníu.
Mengunarmökkur yfir Los Angeles í Kaliforníu. AFP

Sérfræðingar í loftslagsmálum eru sammála um nauðsyn alþjóðlegs kolefnisgjalds til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda og aukinni fjárfestingu í hreinum orkugjöfum, en þrátt fyrir það verður málið ekki á dagskrá loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París.

Þjóðarleiðtogar, iðnjöfrar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn eru meðal þeirra sem höfðu vonað að hugmyndin fengi hljómgrunn á ráðstefnunni.

Kolefnisgjaldið hefur verið útfært á ýmsa vegu víða um heim og nýtur stuðnings merkra aðila en í viðtali við franska tímaritið L'Express sagði Francois Hollande Frakklandsforseti að það yrði ekki til umræðu á ráðstefnunni í desember.

Tilgangur kolefnisgjaldsins er að búa til hvata fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og færa áherslur yfir á þróun og fjárfestingu í grænum lausnum.

Frederic Dinguirard hjá The Shift Project er meðal þeirra sem hefur kallað eftir kolefnisgjaldi til að hvetja til langtímafjárfestinga, sem hann segir forsendu umskipta yfir í samfélag sem reiðir sig í litlum mæli á kolefni.

The Global Commission on the Economy and Climate, sjálfstætt verkefni undir forystu Felipe Calderon, fyrrverandi forseta Mexíkó, og hagfræðingsins Nicholas Stern, mælir með því ríkisstjórnir taki upp afdráttarlaust, fyrirsjáanlegt og hækkandi kolefnisgjald.

Ráðið segir kolefnisgjaldið skilvirka aðferð til að ná loftslagsmarkmiðum, með því að stýra neyslu og fjárfestingu í átt að kolefnisminni valkostum. Þá segir það lækkun olíuverðs kjörið tækifæri til að taka kolefnisgjaldið á dagskrá.

Tuttugu alþjóðleg fyrirtækjasamtök, þeirra á meðal Business Europe, sendu Christina Figueres, framkvæmdastjóra loftslagsmála hjá SÞ, nýlega erindi þar sem þau ítrekuðu mikilvægi þess að samkomulag næðist á fundinum í París um kolefnismarkað.

„Þróun kolefnismarkaðar mun hvetja til fjárfestinga í nýrri tækni, framleiðslutækjum og vörum, sem verða framleiddar við hagstæðustu skilyrði fyrir umhverfið fyrir minnstan efnahagslegan kostnað,“ sagði í erindi Business Europe, sem hvatti til þess að skapaður yrði alþjóðlegur grundvöllur í þessu samhengi til að tryggja sanngjarnan samanburð.

Starfsmaður setur límmiða með merki loftslagsráðstefnunnar á rafmagnsbifreiðina Nissan Leaf.
Starfsmaður setur límmiða með merki loftslagsráðstefnunnar á rafmagnsbifreiðina Nissan Leaf. AFP

Alþjóðleg samvinna nauðsynleg

Líkt og fyrr segir hefur hins vegar verið ákveðið að taka málið ekki á dagskrá í París. Brice Lalonde, fyrrverandi umhverfisráðherra Frakklands og sérstakur ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna, segir það miður.

„Þetta varpar ljósi á hinar abstrakt hliðar samningaviðræðanna og veröld diplómatanna, samanborið við veröld efnahagslegs raunveruleika,“ segir hann.

Í samtalinu við L'Express sagðist Hollande vonast til þess að leiðtogarnir myndu koma inn á gagnsemi kolefnisgjaldsins í lokayfirlýsingu sinni.

Það þykir Lalonde ólíklegt, þar sem olíu- og kolaveldin séu því mótfallin.

Fram til þessa hafa um 40 ríki og 23 borgir tekið upp kolefnisgjald eða sett á dagskrá. Umrædd ríki standa fyrir 12% af losun gróðurhúsaloftegunda í heiminum samkvæmt Alþjóðabankanum.

„Málin eru að þróast, en ekki nægilega hratt til að hafa raunveruleg áhrif á efnahagsmódel,“ segir Pascal Canfin hjá World Resouces Institute.

Ríki Evrópu komu á laggirnar kolefnismarkaði fyrir um áratug en undanþágur og lágt verð hafa dregið úr hvatanum til fjárfestinga í kolefnafríum lausnum.

„Kolefnisverðið er málefni þar sem alþjóðleg samvinna leiðir af sér aukinn skriðþunga meðal einstakra þjóða. Niðurstöður Parísarfundarins hvað þetta varðar mun því verða eitt þeirra lykilatriða sem við horfum til þegar við metum árangur ráðstefnunnar,“ segir Canfin.

Lalonde segir að kolefnisgjaldið verði að vera nógu hátt til að hvetja fyrirtæki frá því að velja kolefnafrekar lausnir og þá sé nauðsynlegt að taka fyrir ívilnanir í kolefnaðnaði.

Það má fara margar og ólíkar leiðir að sameiginlegum markmiðum.
Það má fara margar og ólíkar leiðir að sameiginlegum markmiðum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert