Í höndum sýrlenska hersins

Annar rússnesku flugmannanna sem voru borð í herflugvélinni sem var skotin niður af Tyrkjum í gær var tekinn af sýrlenska hernum, segir rússneskur stjórnarerindreki.

Þetta hefur Europe 1 eftir sendiherra Rússlands í Frakklandi. „Honum tókst að flýja og samkvæmt nýjustu upplýsingum okkar þá er hann í höndum sýrlenska hersins og verður farið með hann í herflugstöð Rússlands,“ segir Alexander Orlov sendiherra Rússlands í Frakklandi í viðtali við útvarpsstöðina Europe 1. Hinn flugmaðurinn var drepinn.

Rússar hafa slitið hernaðarsambandi við Tyrkland eftir að tyrknesk herþota grandaði rússneskri herþotu á landamærum Tyrklands og Sýrlands í gær.

Boðað var til aukafundar hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) í gær í kjölfar árásarinnar en tveir flugmenn, sem voru í rússnesku herþotunni, skutu sér út úr henni í fallhlífum. Talsmaður rússneska hersins segir annan þeirra hafa beðið bana þegar sýrlenskir uppreisnarmenn skutu á flugmennina og annar rússneskur hermaður lést þegar uppreisnarmenn skutu á herþyrlu sem leitaði flugmannanna.

Stoltenberg hvatti til stillingar

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hvatti til stillingar eftir fund NATO í gær en sagði bandalagið þó standa þétt á bak við Tyrkland og rétt landsins til að verja landamæri sín og lofthelgi. Barack Obama Bandaríkjaforseti tók í sama streng.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagði árásina koma til með að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir tengsl Rússa og Tyrkja, og aflýsti Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, fyrirhugaðri ferð sinni til Tyrklands í gær. Sagði Pútín árásina vera „rýtingsstungu í bakið af hálfu samstarfsmanna hryðjuverkamanna“.

Tyrknesk stjórnvöld segja rússnesku þotuna hafa rofið lofthelgi Tyrklands tíu sinnum á fimm mínútum og hafa fengið ítrekaðar viðvaranir áður en skotum var hleypt af. Rússar hafna þessu og segja þotuna ekki hafa farið í tyrkneska lofthelgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert