Mun sniðganga minningarathöfn

Fórnarlömbum árásanna minnst.
Fórnarlömbum árásanna minnst. AFP

Fjölskylda manns sem lét lífið í hryðjuverkaárásum í París fyrr í mánuðinum hefur kallað eftir því að fólk sniðgangi minningarhátíð stjórnvalda um fórnarlömb árásanna. Sakar hún stjórnvöld um að hafa mistekist að verja íbúa Frakklands fyrir hryðjuverkum.

Emma Prevost, sem missti bróður sinn, Francois-Xavier, í árásunum, skrifaði á Facebook um áætlaða minningarathöfn á föstudaginn og sagðist ekki ætla að mæta. Hún og fjölskylda hennar saka Francois Hollande, forseta Frakklands, og aðra stjórnmálamenn, um að bera ábyrgð á fjöldamorðunum, en 130 létu lífið. Í færslunni gagnrýnir hún einnig viðbrögð stjórnvalda við hryðjuverkaárásunum í París í janúar þar sem 17 létu lífið.

Prevost gagnrýndi það einnig að hryðjuverkamenn hafi getað ferðast til Sýrlands og snúið „frjálsir“ aftur til Frakklands.

Því hefur verið haldið fram í frönskum fjölmiðlum að Bilal Hadfi, einn þeirra sem sprengdi sig í loft upp í árásunum, hafi oft verið handtekinn af lögreglu. Þrátt fyrri það gat hann farið tvisvar til Sýrlands og aftur til Frakklands án afskipta yfirvalda. 

Abdelhamid Abaaoud, sem er talinn hafa skipulagt árásirnar 13. nóvember, á einnig að hafa náð að komast til Frakklands frá Sýrlandi, þrátt fyrir það að vera tengdur við hryðjuverk og eftirlýstur af lögreglu.

Prevost sagði einnig að frönsk yfirvöld hefðu hafið loftárásir gegn Ríki íslams í Sýrlandi án þess að tryggja öryggi franskra borgara.

Frétt Sky News. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert