Sögð hafa verið barin til dauða í Sýrlandi

Stúlkurnar voru aðeins 16 og 15 ára þegar þær fóru …
Stúlkurnar voru aðeins 16 og 15 ára þegar þær fóru til Sýrlands. Skjáskot

Unglingsstúlka sem fór frá heimili sínu í Vínarborg til þess að ganga til liðs við Ríki íslams var barin til dauða af liðsmönnum samtakanna eftir að hún reyndi að flýja. Samra Kesinovic fór til Sýrlands á síðasta ári þegar hún var aðeins 16 ára gömul. 15 ára vinkona hennar, Sabina Selimovic, fór með henni.

The Independent segir frá þessu.

Stúlkurnar birtust báðar í áróðursmyndum Ríks íslams á samfélagsmiðlum og heimasíðum. Mátti sjá þær bera Kalashinkov riffla,  umkringdar vopnuðum mönnum. En í október á síðasta ári var haft eftir vinum stúlknanna að Kesinovic hafi viljað koma heim eftir að hafa fengið nóg af ofbeldinu.

Nú halda austurrískir fjölmiðlar því fram að Kesnovic hafi verið myrt þegar hún reyndi að flýja Raqqa, höfuðvígi Ríkis islams.

Einn fjölmiðill vitnar í konu frá Túnis sem segist einnig að hafa farið til Sýrlands til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin. Hún segist hafa búið með stúlkunum tveimur í Raqqa. Hún er nú komin aftur til Túnis.

Talsmenn utan- og innanríkisráðuneyta Austurríkis hafa neitað að staðfesta fregnirnar.

Á síðasta ári greindi David Scharia, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í baráttu við hryðjuverk, að 15 ára austurrísk stúlka af bosnískum uppruna sem hafði gengið til liðs við Ríki íslams væri nú horfin. Er talið að það hafi verið Kesinovic. Á sínum tíma greindi Scharia jafnframt frá því að vinkona hennar, Selimovic, hafi látið lífið í átökum í Sýrlandi.

Kesinovic og Selimovic voru báðar dætur bosníska flóttamanna sem flúðu til Austurríkis á tíunda áratugnum.

Þær eiga að hafa farið til Sýrlands í apríl 2014 og er talið að þær hafi gifts vígamönnum samtakanna. Austurrísk yfirvöld hafa sakað íslamskan predikara í Vín um að hafa sent stúlkurnar til Sýrlands. Hann hefur ávallt neitað þeim ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert