Vilja ekki átök við Rússa

Tyrkir vilja ekki á nokkurn hátt stuðla að aukinni spennu í samskiptum við Rússland í kjölfar þess að tyrknesk orrustuþota skaut niður rússneska þotu við landamæri Tyrklands að Sýrlandi í gær. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í dag. Lagði hann áherslu á að Tyrkir hefðu einungis verið að verja öryggi sitt með því að granda rússnesku þotunni.

„Tyrkland hefur aldrei viljað spennu og átök. Tyrkir hafa alltaf viljað frið og samræður og munu alltaf gera það,“ sagði Erdogan en bætti við að ekki kæmi til greina að standa aðgerðalaus hjá þegar brotið væri gegn landamæraöryggi og fullveldi landsins.

Tyrknesk stjórnvöld hafa lýst því yfir að rússneska þotan hafi ítrekað rofið lofthelgi Tyrklands áður en hún var skotin niður. Rússneskir ráðamenn segja hins vegar að þotan hafi aldrei yfirgefið sýrlenska lofthelgi.

Frétt mbl.is: Í höndum sýrlenska hersins

Erdogan sagði að atvikið sýndi hvaða afleiðingar „kæruleysisleg framganga“ gæti haft. Hann sagði ennfremur að tveir Tyrkir hefðu slasast þegar brak úr rússnesku þotunni hefðu hrapað til jarðar á tyrknesku landi.

Hann vísaði ennfremur á bug þeim fullyrðingum Rússa að þotan hafi verið að sinna aðgerðum gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams í norðanverðu Sýrlandi. Vígamenn samtakanna væri ekki að finna Sýrlandsmegin á svæðinu.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert