Árás er möguleg og líkleg í Belgíu

Hermenn standa vaktina í Belgíu.
Hermenn standa vaktina í Belgíu. AFP

Yfirvöld í Belgíu hafa ákveðið að lækka viðbúnaðarstig í Brussel úr hæsta stigi, sem er fjórða stig af fjórum, niður í þriðja stig. Hryðjuverkaárás þar er þó enn talin líkleg. Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá þessu.

Í nær viku hefur hæsta viðbúnaðarstig vegna hugsanlegra hryðjuverka verið við lýði í borginni og má víða sjá vopnaða lögreglu- og hermenn á götu úti, en yfirvöld í Belgíu óttuðust mjög sams konar árás og gerð var í París 13. nóvember síðastliðinn þegar 130 voru drepnir og yfir 350 særðir í nokkrum samhæfðum árásum vígamanna Ríkis íslams.

Að minnsta kosti einn árásarmannanna í París bjó í Brussel.

Fjórða stig vegna hryðjuverka táknar alvarlegt ástand og yfirvofandi árás. Þriðja viðbúnaðarstig, sem nú er í gildi í bæði Brussel og landinu öllu, táknar hins vegar að árás sé möguleg og líkleg.

Um tíma var skólum og jarðlestarkerfi borgarinnar lokað í öryggisskyni af ótta við árás vígamanna en starfsemi þeirra er nú orðin eðlileg aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert