Ársfangelsi fyrir fjárdrátt upp á 23 krónur

Indversk stjórnvöld hafa árum saman boðið ungu fátæku fólki að …
Indversk stjórnvöld hafa árum saman boðið ungu fátæku fólki að fara í ófrjósemisaðgerð en aðstæður til slíkra aðgerða eru oft hræðilegar. AFP

Tveir starfsmenn sjúkrahúss á Indlandi voru í dag dæmdir í eins árs fangelsi fyrir að hafa dregið sér fé, 11 rúpíur, sem svarar til 23 króna, fyrir meira en aldarfjórðungi.

Hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði voru fundnir sekir um að hafa skráð fleiri ófrjósemisaðgerðir en þeir aðstoðuðu við að framkvæma árið 1989 til þess að auka tekjur sínar.

Á þessum tíma greiddu indversk stjórnvöld heilbrigðisstarfsmönnum fyrir að hvetja karla og konur til þess að fara í ófrjósemisaðgerðir í þeirri von að hægt yrði að hægja á fjölgun landsmanna.

Það var dómstóll í borginni Meerut sem komst að þessari niðurstöðu, að dæma fyrrverandi hjúkrunarfræðing, Noor Jahan og sjúkraliðann Shobha Ram, sem bæði eru farin á eftirlaun fyrir meira en áratug, í eins árs fangelsi fyrir brot sitt.

Lögmaður þeirra segir að dómnum verði áfrýjað enda séu þeir sem svíkja milljónir rúpía út úr ríkinu á hverju ári ekki dæmdir í fangelsi en á sama tíma séu þau dæmd fyrir stuld á 22 rúpíum alls en þau hafi eytt 300 þúsund rúpíum í málið nú þegar.

Mjög er gagnrýnt hversu hægvirt indverska dómskerfið er og talið að það taki 320 ár að hreinsa upp 31,28 milljónir ófrágengina mála fyrir indverskum dómstólum.

Samkvæmt áætlun stjórnvalda var greidd 181 rúpía fyrir hverja ófrjósemisaðgerð en stærsti hlutinn rann til manneskjunnar sem fór í aðgerðina. Hjúkrunarfræðingurinn og sjúkraliðinn fengu eina rúpíu hvor fyrir hverja aðgerð.

Ríkissaksóknari höfðaði mál gegn fimm starfsmönnum sjúkrahússins, meðal annars skurðlækninn, en þrír þeirra létust á meðan réttarhöldin stóðu yfir. Málflutningur hófst ekki fyrr en 1998 þar sem það tók sjö ár að ljúka rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert