Sádar undirbúa fjöldaaftökur

Meðal aftökuaðferða í Pakistan og víðar er að hengja fanga
Meðal aftökuaðferða í Pakistan og víðar er að hengja fanga Amnesty International

Amnesty International hefur varað við því að í undirbúningi séu fjöldaaftökur í Sádi-Arabíu. Ekki er um hryðjuverkaárás að ræða heldur skipulagðar aftökur á vegum ríkisins. Stefnt er að því að taka tugi fanga af lífi á einum degi.

Dagblaðið Okaz greinir frá því að 55 bíði aftöku í Sádi-Arabíu fyrir brot á hryðjuverkalöggjöf landsins og í frétt dagblaðsins al-Riyadh kemur fram að 52 verði teknir af lífi fljótlega. Þeirri frétt hefur nú verið eytt, segir á vef BBC. Meðal þeirra er fólk sem tók þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum í landinu.

Samkvæmt upplýsingum BBC frá Amnesty International hefur 151 verið dæmdur til dauða í Sádi-Arabíu það sem af er ári. Þeir hafa ekki verið svo margir í 20 ár eða frá árinu 1995. Í fyrra voru 90 teknir af lífi þar. 

Tók þátt í mótmælum 17 ára

Ali al-Nimr
Ali al-Nimr

 

Meðal þeirra sem bíða aftöku í Sádi-Arabíu er Ali al-Nimr. Hann var bara sautján ára þegar hann var fangelsaður fyrir mótmæli og almenna pólitíska óþekkt meðan arabíska vorið stóð sem hæst. Stjórnvöld stungu honum í steininn og nú, þremur árum seinna, hefur hann verið dæmdur til krossfestingar og dauða af sérstökum glæpadómstól í landinu. Nái refsingin fram að ganga verður hann afhöfðaður og lík hans sýnt opinberlega, öðrum mótmælendum til varnaðar.

BBCAmnesty International

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert