5% fólks með fæðuofnæmi

Egg
Egg Ásdís Ásgeirsdóttir

Ofnæmi fyrir ákveðinni fæðutegund hrjáir 4% fullorðinna og 4-6% barna samkvæmt könnun frá Centers for Disease Control and Prevention í Bandaríkjunum. Áhrif fæðuofnæmis eru algengust hjá börnum en ofnæmi getur myndast hvenær sem er á lífsleiðinni og jafnvel er hægt að fá skyndilega ofnæmi fyrir fæðu sem þú hefur borðað alla ævi.

Hnetur
Hnetur

Getur verið lífshættulegt

Ónæmiskerfi líkamans vinnur gegn sýkingum og öðru sem setur líkamann í hættu. Ofnæmisviðbrögð við fæðu kemur fram þegar ónæmiskerfið bregst við fæðunni sem hættu. Fæðuofnæmi virðist vera ættgengt en ómögulegt virðist vera að spá fyrir hvort barn muni erfa ofnæmið frá foreldri.

Einkennin geta verið allt frá mildum áhrifum í að vera mjög alvarleg. Fólk sem fær mild viðbrögð við ákveðinni fæðutegund einu sinni, gæti jafnvel fengið mun alvarlegri einkenni í næsta skipti. Alvarlegasta tegund fæðuofnæmis kallast bráðaofnæmi og getur verið lífshættulegt. Fólk á erfitt með andardrátt, blóðþrýstingur fellur og hjartsláttur breytist. Þessi viðbrögð geta komið fram mínútum eftir að fæðunnar hefur verið neytt og skiptir þá máli að bregðast skjótt við með adrenalínsprautu.

Átta tegundir algengastar

Hægt er að vera með ofnæmi fyrir ýmiss konar fæðutegundum en átta tegundir eru orsök 90% af öllum ofnæmisviðbrögðum. Það eru egg, mjólk, hnetur, trjáhnetur, fiskur, skelfiskur, hveiti og soja.

Vissar frætegundir eru einnig á lista yfir algenga fæðu sem valdið getur ofnæmi, eins og sesamfræ og sinnepsfræ.

Ofnæmið sést gjarnan á húðinni í formi útbrota en einnig er algengt að fá kviðverki. Hósti, bólgin tunga og háls, veikur púls og fölur eða bláleitur litarháttur eru önnur einkenni.

Brynjar Gauti

Margir misskilja hugtakið

Mjög margir telja sig vera með fæðuofnæmi þó að slíkt sé ekki tilfellið. Næstum þriðjungur Bandaríkjamanna telur sig vera með fæðuofnæmi, samkvæmt nýrri rannsókn sem birt var í The Journal of the American Medical Association, þrátt fyrir að einungis í kringum 4-5% séu raunverulega með ofnæmi. Sérfræðingar telja að fólk ofnoti orðið fæðuofnæmi því það viti ekki nákvæmlega hvað felist í hugtakinu. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert