Banna mótmæli gegn stjórnvöldum

Park Geun-Hye, forseti Suður-Kóreu.
Park Geun-Hye, forseti Suður-Kóreu. AFP

Lögregluyfirvöld í Suður-Kóreu hafa bannað víðtæk mótmæli sem fyrirhuguð voru í höfuðborginni Seúl í dag. Mótmælin áttu að beinast gegn stjórnvöldum, en lögreglan nýtti sér lagaheimild sem gerir þeim kleift að banna mótmæli sem gætu reynst ofbeldisfull. Aðgerðasinnar hafa þess í stað ákveðið að færa mótmælin til næstu helgar og mótmæla við skrifstofu borgarstjóra Seúl.

Gagnrýnendur segja að með þessu séu stjórnvöld að færa sig aftur í far valdboðs og ráðríkis, en núverandi forseti landsins, Park Geun-Hye, er dóttir hershöfðingjans Park Chung-Hee, sem var forseti og stjórnaði landinu með harðri hendi eftir miðja síðustu öld. Þrátt fyrir harðstjórnina fór landið í gegnum gífurlegt framfaraskeið á þessu tímabili, en undir hans stjórn styrktist staða svokallaðra chaebol  gríðarlega, en það voru fjölskyldur sem fengu heimildir og ívilnanir til að stunda viðskipti og reka stór framleiðslufyrirtæki til útflutnings. Í dag eru nokkur þessara fyrirtækja þekkt um allan heim, svo sem LG og Samsung.

Mótmælin sem átti að halda í dag voru með breiðan fókus, en meðal annars átti að mótmæla breytingum á vinnumarkaði, hugmyndum um að láta skóla nota nýjar skólabækur sem ríkið átti að gefa út og áformum um að opna upp landbúnaðakerfi landsins.

Fyrir tveimur vikum bannaði lögreglan svipuð mótmæli, en þá mættu 60 þúsund manns á mótmælin og urðu ryskingar milli lögreglu og mótmælenda. Dómsmálaráðherra landsins, Kim Hyun-Woong, sagði þá í sjónvarpsávarpi að stjórnvöld væri ákveðin í að uppræta svona ólöghlýðni og að lögbrjótar myndu gjalda fyrir.

Frá Cheonggyecheon svæðinu í miðbæ Seúl.
Frá Cheonggyecheon svæðinu í miðbæ Seúl. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert