Ráðherra sagði af sér vegna banvæns eineltis

Grant Shapps
Grant Shapps AFP

Ráðherra í bresku ríkisstjórninni sagði af sér í dag í kjölfar ásakana um einelti af hálfu manns sem hann tilnefndi til starfa fyrir Íhaldsflokkinn sé meginástæðan fyrir sjálfsvígi annars ungliða í flokknum.

Grant Shapps, sem fór með alþjóðleg þróunarmál í bresku ríkisstjórninni og fyrrverandi stjórnarmaður í Íhaldsflokknum, réð í fyrra Mark Clarke til starfa hjá flokknum og var það hans hlutverk að skipuleggja herferðir flokksins sem beindust að ungu fólki.

Elliott Johnson, 21 árs, fyrrverandi textahöfundur á bloggi Íhaldsflokksins, hélt því fram að Clarke hafi lagt hann í einelti í sjálfsvígsbréfi sem fannst í kjölfar þess að hann framdi sjálfsvíg með því að leggjast á járnbrautateina skömmu áður en lest fór um teinana í september.

Clarke, sem hefur verið rekinn úr Íhaldsflokknum, neitar sök. Í afsagnarbréfi sínu til forsætisráðherra, Davids Camerons, segir Shapps að þrátt fyrir að aldrei hafi verið lagðar fram skriflegar ásakanir á hendur Clarke áður þá hafi ýmis smáatriði átt að vekja hann til umhugsunar fyrr. Vegna þess hversu alvarlegar ásakanir eru á hendur Clarke, og að hann hafi ráðið hann til starfa fyrir flokkinn, þá geti hann ekki annað en sagt af sér embætti ráðherra.

Cameron samþykkti afsögn Shapps og þakkaði honum fyrir vel unnin störf fyrir flokkinn.

Í úttekt sem birt var í Guardian í gær þá lagði Johnson fram formlega kvörtun til flokksins þar sem hann sakaði Clarke um að hafa beitt sig andlegu ofbeldi og hótað honum líkamlegu ofbeldi.

Í viðtali við Guardian segir faðir Johnsons, Ray, að það hafi verið löngu tímabært að ráðherrann segði af sér. Hann hafi átt að gera það fyrir nokkrum vikum síðan. Hann segir að þetta sé dæmigert fyrir stjórnmálamenn sem hangi í starfi eins lengi og þeir mögulega geti.

Umfjöllun Guardian 

Saga Elliots Johnsons í Guardian 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert