Átök brutust út á landamærum Makedóníu

Til átaka kom á landamærum Makedóníu og Grikklands í dag þar sem hópur flóttafólks sem reynir að komast til Makedóníu kastaði grjóti í lögreglumenn sem standa vörð á landamærunum.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti Makedóníu slösuðust átján lögreglumenn og þurftu tveir þeirra að leggjast inn á sjúkrahús eftir að hafa lent í átökum við flóttafólk í Gevgelija. Makedónía er ekki í Evrópusambandinu en hermenn þar í landi vinna nú að uppsetningu varnargirðingar á hluta landamæra sinna. Bæði lögreglubílar og herbílar skemmdust í átökunum. 

Gríska fréttastofan Ana segir að lögreglumenn í Makedóníu hafi skotið viðvörunarskotum í átt að flóttafólkinu.

Ró sé komin á að nýju en byrjað var að setja upp varnargirðinguna skammt frá Gevgelija,sem er við þjóðveginn milli grísku borgarinnar Þessalónikíu og höfuðborgar Makedóníu, Skopje.

Innanríkisráðherra Makedóníu segir að girðingin sé sett upp til þess að tryggja að flóttafólk reyni ekki að komast yfir landamærin án þess að gera grein fyrir sér á eftirlitsstöð.

Eftirlit hefur verið hert að undanförnu, ekki síst eftir árásirnar í París 13. nóvember en tveir árásarmannanna virðast hafa komist til Evrópu óhindrað frá Sýrlandi. Þeir þóttust vera sýrlenskir flóttamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert