Deilur vegna jólalaga í skólum

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, hefur gagnrýnt skólastjórnanda einn í borginni Rozzano fyrir að hafa bannað árlega jólatónleika í skólanum í nafni fjölmenningar. „Jólin eru miklu mikilvægari en ögrandi hegðun skólastjóra,“ var haft eftir Renzi í ítölskum blöðum í dag.

Renzi var greinilega ekki ánægður með framgöngu skólastjórans og sagði að ef hann héldi að með þessu væri hann að ýta undir sameiningu í samfélaginu þá hefði hann gert mjög stór mistök.

Ákvörðun skólastjórans, Marco Parma, olli miklum deilum á Ítalíu og hafa fjölmiðlar greint náið frá málinu. Ákvað hann að fresta tónleikunum til janúar, taka í burtu alla tengingu við trúarbrögð og kalla þá vetrartónleika.

Þá hefur skólastjórinn einnig bannað tveimur mæðrum nemenda að kenna jólalög í skólanum í frímínútum.

„Í fjölmenningarsamfélagi veldur þetta vandamálum,“ er haft eftir Parma, en hann segir ákvörðunina hafa verið tekna í ljósi óánægju með fyrirkomulagið í fyrra. Sagði hann að í fyrra hefðu nokkrir foreldrar krafist þess að sungin yrðu jólalög, en múslimskir nemendur hefðu þá sleppt því að syngja í viðkomandi lögum.

Um þúsund nem­end­ur eru í Garof­ani-grunn­skól­an­um og er fimmt­ung­ur þeirra sagður annarr­ar trú­ar en kristni, flest­ir múslim­ar.  Parma hef­ur sagst reiðubú­inn til þess að missa starfið, en hann fari ekki ofan af ákvörðun sinni.

Kaþólska hef­ur ekki verið rík­is­trú á Ítal­íu síðan 1984 en enn eru lög í gildi frá tíma Mus­sol­in­is sem kveða á um róðukrossa í öll­um skól­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert