Kassadama meistaraverk Da Vinci?

La Bella Principesa
La Bella Principesa

Væri Fallega prinsessan eftir Leonardo da Vinci réttar nefnd Búðarlokan eftir Greenhalgh? Shaun Greenhalgh, alræmdur breskur listaverkafalsari, hefur að minnsta kosti fullyrt að hann hafi sjálfur teiknað prinsessuna, innblásinn af ráðríkri kassadömu að nafni Sally.

Þetta kemur fram í væntanlegri bók, Saga falsara (A Forger's Tale), um líf Greenhagh. Í kafla úr bókinni sem birtist í Sunday Times segist hann hafa teiknað myndina árið 1978 þegar hann vann í matvöruverslun. Þar vann á búðarkassa fyrrnefnd Sally, sem hann lýsir svo: „Þrátt fyrir fábrotna stöðu í búðinni var hún ráðríkur andskoti með uppblásið sjálfsálit.“

Sérfræðingar hafa tileinkað Leonardo da Vinci myndina af ljóshærðu konunni, sem sést klædd í föt og með hárgreiðslu í stíl yfirstéttarkvenna í Mílanó á seinni hluta 15. aldar.

Rannsóknir á myndinni hafa leitt í ljós að liturinn í henni sé að minnsta kosti 250 ára gamall en Greenhalgh segist hafa unnið sína eigin liti úr járnríkum leir til þess að teikna myndina og notað borgarráðsskjal frá 1587 til þess að teikna á. Myndinni sneri hann svo 90° til hægri til þess að leika eftir vinstri handar stíl Leonardos.

Teikningin hefur verið sýnd sem verk eftir Da Vinci og verðmetin á um 150 milljón bandararíkjadali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert