Mikið mannfall í loftárásum

AFP

Að minnsta kosti átján almennir borgarar létust og 40 særðust í loftárás á bæinn Ariha í Idlib héraði í Sýrlandi í morgun. Talið er að Rússar hafi gert loftárásirnar, samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum.

Ariha er undir stjórn vígasamtaka (Army of Conquest) en innan samtakanna eru félagar úr nokkrum íslömskum öfgahópum, svo sem Al-Nusra Front, sem eru innan vébanda hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda. 

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að sprengjum hafi rignt yfir hluta bæjarins og að sjúkralið sé á leið á staðinn. Hluti hinna særðu eru í lífshættu. Army of Conquest vígasamtökin náðu Ariha á sitt vald í maí eftir harða bardaga við stjórnarherinn.

Rússar hófu lofthernað í Sýrlandi fyrir tveimur mánuðum. Þeir segja að búðir Ríkis íslams séu skotmörkin sem og önnur hryðjuverkasamtök en ýmsir efast um að þeir séu einu skotmörkin heldur allir þeir sem berjast gegn stjórnarhernum.

Rússar rufu lofthelgi Ísraela

Í dag greindi varnarmálaráðherra Ísraels, Moshe Yaalon, frá því að rússnesk herþota hafi rofið lofthelgi Ísraela nýverið án þess að hún hafi verið skotin niður. Nokkrir dagar eru síðan her Tyrklands skaut niður rússneska sprengjuflugvél á landamærum Sýrlands en Rússar neita því að vélin hafi farið inn fyrir lofthelgi Tyrlands líkt og Tyrkir halda fram.

Yaloons segir að rússneska herþotan hafi farið eina mílu (1,6 km) inn fyrir lofthelgi Ísraels en henni hafi umsvifalaust verið snúið við og hún snúið inn í sýrlenska lofthelgi. Hann segir að um mistök flugmannsins hafi verið að ræða en hann flaug nálægt Gólan hæðum. Ísraelar náðu yfirráðum yfir stærsta hluta Gólanhæða af Sýrlendingum árið 1967. 

Yaalon ítrekar að Ísraelar og Rússar hafi gert samkomulag sem miði að því að koma í veg fyrir átök vegna Sýrlands. Meðal þess sem felst í samkomulaginu er beint samband milli ríkjanna og að skiptast á upplýsingum. Hann segir að rússneskar herþotur ætli ekki að gera árás á Ísrael og því megi ekki bregðast við með því að skjóta þær umsvifalaust niður ef mistök eru gerð.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu og forseti Rússlands, Valdimír Pútín, áttu fund í Moskvu í september þar sem þeir ræddu um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að til átaka kæmi á landamærunum.

Ísraelar hafa gert á annan tug loftárása í Sýrlandi frá árinu 2013 og hafa þær einkum beinst að vopnaflutningum til Hisbollah. Ísraelar eru andsnúnir forseta Sýrlands, ólíkt Rússum, en hafa ekki áhuga á að blandast inn í stríðið þar.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert