Tyrkland fær 420 milljarða styrk vegna flóttafólks

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB …
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB eftir fundinn um samskipti Tyrklands og ESB. AFP

Evrópusambandið og Tyrkland hafa samið um þriggja milljarða evru aðstoð vegna flóttamannastraums Sýrlendinga í gegnum landið. Verður framlagið í peningum og á að mæta auknum kostnaði tyrkneska ríkisins vegna málsins og um leið ýta undir aðildarumsókn Tyrklands að Evrópusambandinu.

Um 2,2 milljónir flóttamanna frá Sýrlandi eru nú í Tyrklandi og hefur ríkið tekið á móti flestum flóttamönnum af ríkjum heimsins. Um 1,2 milljónir eru í Líbanon, 1,4 milljónir í Jórdaníu og rúmlega hálf milljón í öðrum arabaríkjum. Talið er að um 700 þúsund flóttamenn hafi ferðast til Evrópuríkja síðan átökin í Sýrlandi hófust.

Upphæðin er um 420 milljarðar íslenskra króna, en Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, staðfesti þessar tölur við blaðamenn í Brussel í dag, en hann kynnti ráðstafanirnar ásamt Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands.

„Samkomulag okkar setur upp skýrt markmið um endurskipulagningu á sameiginlegum ytri landamærum,“ sagði Tusk um frekari markmið samkomulagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert