„Ekki fleiri barnshlutar“

Lögeglumenn fylgja fólki sem árásamaðurinn tók í gíslingu í öruggt …
Lögeglumenn fylgja fólki sem árásamaðurinn tók í gíslingu í öruggt skjól á föstudaginn. AFP

Skotárásin í heilsugæslustöð Planned Parenthood á föstudag átti sér stað í eitruðu andrúmslofti sem andstæðingar fóstureyðinga hafa magnað upp undanfarið. Frambjóðendur repúblikana hafa meðal annars lýst stofnuninni sem „slátrurum“ og hún versli með líkamsparta fóstra. Árásarmaðurinn virðist hafa vísað til þess eftir að hann var handtekinn.

Réttur kvenna til að ráða yfir eigin líkama er eldfimt pólitískt mál í Bandaríkjunum en ýmsir kristnir söfnuði og íhaldssamir stjórnmálamenn halda uppi hatrammri andstöðu við fóstureyðingar. Þeir síðarnefndu hafa komið því til leiðar að í sumum ríkjum Bandaríkjanna hefur verið þrengt mjög að möguleikum kvenna til að komast í fóstureyðingar.

Planned Parenthood er stofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni og veitir konum heilsugæslu á sviði kynheilbrigðis. Hún býður meðal annars upp á fóstureyðingar og hefur talað fyrir rétti kvenna til þeirra.

Eftir að hópur sem er andsnúinn fóstureyðingum birti röð myndskeiða sem hann heldur fram að sýni starfsmenn og stjórnendur Planned Parenthood stunda ólögleg viðskipti með fóstur hafa þingmenn Repúblikanaflokksins leitt tilraunir til þess að hætta öllum opinberum fjárveitingum til stofnunarinnar.

Ekkert hefur hins vegar komið fram sem rennir stoðum undir ásakanir um neitt saknæmt af hálfu Planned Parenthood. Stofnunin útvegar rannsóknarstofum vefi úr fóstrum sem konur hafa samþykkt að gefa til læknisfræðirannsókna.

Kölluð „fóstureyðingarverksmiðja“

Þrátt fyrir það hefur orðræða andstæðinga fóstureyðinga í garð Planned Parenthood verið heiftúðug. Auðkýfingurinn Donald Trump sem mælist með mest fylgi frambjóðenda í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári hefur lýst stofnuninni sem „fóstureyðingarverksmiðju“.

Mike Huckabee, fyrrverandi ríkisstjóri í Arkansas og annar frambjóðandi í forvalinu, hefur meðal annars kallað hana „slátrara“ sem standi í „villimannslegum“ og „illum“ viðskiptum með líkamshluta fóstra.

Árásarmaðurinn sem drap þrjá og særði níu aðra í heilsugæslustöð Planned Parenthood í Colorado á föstudag virðist hafa hugsað á þessum nótum. Heimildir herma að hann hafi sagt „ekki fleiri barnshlutar“ eftir að hann var handtekinn. Lögregla hefur hins vegar ekki enn greint formlega frá hvaða hvatir lágu að baki árásinni.

Orð skipta máli

Árásin á föstudag er langt því frá sú fyrsta á stöð þar sem fóstureyðingar eru gerðar í Bandaríkjunum. Frá árinu 1977 hafa átta manns verið myrtir, sautján morðtilræði verið framin, 42 sprengjuárásir og 186 íkveikjur sem beinast að fóstureyðingarstöðvum eða starfsmönnum þeirra.

Eftir að myndbandsupptökurnar birtust í sumar sem áttu að sýna aðild Planned Parenthood að viðskiptum með líffæri úr mönnum hefur árásum á heilsugæslustöðvar sem bjóða upp á fóstureyðingar fjölgað.

Dawn Laguens, varaforseti Planned Parenthood, segir stjórnmálamenn hafa skapað „eitrað andrúmsloft“ í kringum stofnunina.

„Einn af þeim lærdómum sem má draga af þessum hræðilega harmleik er að orð skipta máli og hatursorðræða kyndir undir ofbeldi. Það er ekki nóg að fordæma harmleikinn án þess að fordæma eitraða orðræðuna sem kynti undir honum. Þess í stað halda sumir stjórnmálamenn áfram að kynda undir sem er óforsvaranlegt,“ sagði hún í yfirlýsingu í gær.

Spurður að því hvort að orðræða hans og fleiri frambjóðenda hafi stuðlað að árásinni þvertók Huckabee fyrir það.

„Ég veit ekki um neinn leiðtoga andstæðinga fóstureyðinga [e. pro-life], ef þú getur nefnt einn leiðréttu mig endilega, ég veit ekki um neinn sem hefur stungið upp á ofbeldi gegn starfsmönnum Planned Parenthood eða einhverju öðru ofbeldi gegn heilsugæslustöðvum þeirra. Ég hef ekki heyrt það. Ég hef heyrt almenna fordæmingu,“ sagði Huckabee við CNN.

Viðbrögð stjórnmálamanna við árásinni hafa verið eftir flokkslínum. Þannig lýstu frambjóðendur í forvali demókrata eins og Hillary Clinton strax yfir stuðningi við Planned Parenthood í kjölfar harmleiksins en frambjóðendur repúblikana hafa hins vegar að mestu þagað þunnu hljóði um hann.

Frétt ABC News af orðræðunni um Planned Parenthood

Frétt The Guardian um pólitískar þrætur eftir árásina

Frétt VOX af árásum á Planned Parenthood

Andstæðingur fóstureyðinga mótmælir utan við heilsugæslustöð Planned Parenthood í Ohio …
Andstæðingur fóstureyðinga mótmælir utan við heilsugæslustöð Planned Parenthood í Ohio í fyrra. AFP
Stuðningsmenn réttinda kvenna krefjast þess að hætt verði að þrengja …
Stuðningsmenn réttinda kvenna krefjast þess að hætt verði að þrengja að möguleikum kvenna til fóstureyðinga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert