Hvað ef við gerum ekkert?

Þurrkar eru að leggja hluta Kaliforníu í eyði.
Þurrkar eru að leggja hluta Kaliforníu í eyði. AFP

Ef mannkyninu mistekst að lágmarka hlýnun jarðar mun það þurfa að kljást við afleiðingar sem spanna allt frá miskunarlausum hitabylgjum og þurrkum til umfangsmikilla fólksflutninga. Þetta segja rannsóknir vísindamanna en fulltrúar 195 ríkja hafa safnast saman í París til að freista þess að ná saman um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og takmarka hlýnunina við tvær gráður.

Hvað gerist ef þeim mistekst?

Hækkandi hitastig

Ef ekkert verður af aðgerðum er útlit fyrir að hitastig á jörðinni hækki um fjórar gráður fyrir næstu aldamót, frá því sem var fyrir iðnbyltinguna. Ógrynni vísindalegra rannsókna bendir til þess að svo mikil hækkun myndi valda hörmungum. Þá er það mat milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) að áhrifin yrðu „alvarleg, víðtæk og óafturkræf“.

Hækkun sjávarborðs

Fyrir árið 2100 myndi sjávarborð hækka um 26-82 sm frá því sem var 1986-2005, samkvæmt IPCC. Nýrri rannsóknir benda til þess að hækkunin gæti orðið meiri. Það sem liggur að baki hækkuninni er bráðnun íss á Grænlandi og Suðuskautslandinu.

Samkvæmt Climate Central, bandarískri rannsóknarstofnun, gæti tveggja gráðu hækkun, sem miðað er að á yfirstandandi ráðstefnu í París, leitt til þess að byggðir 280 milljóna manna færu undir vatn á næstu hundruðum ára.

Þess ber að geta að þessi þróun gæti tekið allt að 2.000 ár.

Fellibylurinn Maysak eins og hann birtist geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni.
Fellibylurinn Maysak eins og hann birtist geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni. Terry W. Virts

Öfgar í veðri

Ofurstormar, fimbulkuldi og hitabylgjur gætu orðið tíðari og öfgafyllri. Reynst hefur erfitt að negla niður tengsl milli loftslagsbreytinga og einstakra veðurviðburða en nýlegar rannsóknir benda til þess að flóð, snjóstorma, fellibyli og hitabylgjur megi rekja til breytinga á loftslagi.

Vísindamenn hafa þó varað menn við því að tengja alla óþverra fellibyli og hitabylgjur við loftslagsbreytingar.

Vatn - ýmist of eða van

Hlýnun jarðar gæti leitt til langvinnra þurrka og skelfilegra flóða, en það þýðir að sumstaðar í heiminum mun skorta vatn en annars staðar verður of mikið af því. Þurrkar í Sýrlandi og Kaliforníu hafa verið raktir til loftslagsbreytinga, en miklar rigningar geta leitt til flóða sem eyðileggja bæði heimili og viðurværi fólks.

Mannúðarkrísa

Vísindamenn segja að loftslagsbreytingar gætu mögulega valdið útbreiðslu sjúkdóma, eyðileggingu uppskera og aukinni fátækt. Átök vegna vatns eða uppskera gætu leitt af sér stríð og/eða fjöldaflutninga.

Íbúar á svæðum sem liggja lágt yfir sjávarborði, t.d. á eyjum í Indlandshafi, gætu þurft að flýja heimili sín. Fátækir hafa þegar fengið að finna fyrir afleiðingum hitabylgja, þurrka og flóða, þar sem fólkið er háð landinu um lífsviðurværi og býr við skort á innviðum.

Fjöldi fólks gæti þurft að yfirgefa heimili sín, m.a. vegna …
Fjöldi fólks gæti þurft að yfirgefa heimili sín, m.a. vegna hækkandi yfirborðs sjávar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert