Obama heimsótti Bataclan

Obama lagði hvíta rós að hinum tímabundna minnisvarða við Bataclan-tónleikahúsið.
Obama lagði hvíta rós að hinum tímabundna minnisvarða við Bataclan-tónleikahúsið. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti heimsótti í morgun Bataclan-tónleikahúsið í París, þar sem hryðjuverkamenn myrtu 90 hinn 13. nóvember sl. Forsetinn lenti á Orly-flugvelli í morgun, en hann er staddur í París til að sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í dag.

Obama var þögull er hann virti fyrir sér tímabundinn minnisvarða um hina látnu, gerðan úr blómum, fánum og kertum. Með honum voru Francois Hollande Frakklandsforseti og Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísarborgar.

Af öryggisástæðum var heimsókn forsetans að Bataclan ekki tilkynnt fyrirfram, en í gær var haft eftir forsetanum í Facebook-færslu að loftslagsrástefnan væri tækifæri fyrir Bandaríkin að sýna samstöðu með elstu bandamönnum sínum, þ.e. Frökkum.

Hollande heimsótti Obama í Washington í síðustu viku, en sl. vikur hefur hann fundað með ráðamönnum og freistað þess að afla stuðnings við aðgerðir gegn Ríki íslam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert