Airbus með óvenjulega þotu

Farþega „gáminum“ er slakað niður á þotuna og hann festur …
Farþega „gáminum“ er slakað niður á þotuna og hann festur á hana.

Evrópsku flugvélaverksmiðjurnar Airbus hafa sótt um einkaleyfi á harla óvenjulegri farþegaþotu. Er farþegaklefinn eins og gámur sem festa má við eða losa frá flugvélinni.

Hugmyndin er að með slíku fyrirkomulagi megi stytta tíma flugvéla á jörðu niðri og fá þannig betri nýtingu út úr þeim. Um leið myndu farþegar ekki þurfa að bíða í röðum eftir að ganga um borð í flugvélar.

Frá þessu er skýrt í tímaritinu Wired sem segir að Airbus hafi lagt inn umsókn til bandarísku einkaleyfisstofunnar  á nýrri kynslóð farþegaflugvéla.

Hugmyndin gengur út á að farþegar gangi til sætis í farþegaklefanum áður en honum er síðan lyft eins og gámi niður á flugvélina og festur við hana. Eftir það er eins og um venjulega þotu að ræða. Talið er að með þessu megi flýta ferlinu við innritun og afgreiðslu flugvélarinnar.

Því lengur sem flugvél er kyrrstæð á jörðu niðri því minni er nýtingartími þeirra og kostnaður af þeim þar af leiðandi hærri því lengur sem líður milli flugferða, segir Airbus í umsókn sinni.

Í þessu sambandi hefur Boeing, helsti keppinautur Airbus, reiknað út, að með því að stytta afgreiðslutíma flugvélar milli ferða um 10 mínútur myndi nýtingarhlutfall hennar aukast um 8,1%.

Ljóst þykir að verði þessi hugmynd að þotu að veruleika útheimtir það talsverða breytingar á innviðum flugvalla til að allt gangi upp samkvæmt umsókninni.

Ný þota af þeirri gerð sem Airbus hugsar sér kallar …
Ný þota af þeirri gerð sem Airbus hugsar sér kallar á miklar breytingar á innviðum flugvalla til að allt gangi upp.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert