Voru „fulltrúar“ Ríkis íslams á Spáni

Annar maðurinn var handtekinn í borginni Pamplona í dag.
Annar maðurinn var handtekinn í borginni Pamplona í dag. AFP

Tveir karlmenn og ein kona hafa verið handtekin á Spáni en þau eru grunuð um að hafa hvatt konur til þess að ganga til liðs við Ríki íslams á netinu. Fólkið var handtekið eftir margra klukkustunda yfirheyrslur. Þau voru í dag úrskurðuð í gæsluvarðahald á meðan rannsókninni stendur.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðneyti Spánar eru mennirnir 32 ára og 42 ára og af Maróskum uppruna. Konan er 24 ára og spænsk. Þau voru öll handtekin í Barcelona.

Yfirvöld hafa sakað þremenningana um að hafa verið „fulltrúa“ Ríkis íslams á Spáni og notað internetið til þess að dreifa skilaboðum og myndböndum til þess að heilla konur til þess að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin.

Eiga þau að hafa verið í sambandi við liðsmenn Ríkis íslams í Sýrlandi í gegnum internetið.

Innanríkisráðherra Spánar, Jorge Fernandez Diaz, sagði í gær að lögregla þar í landi hafi handtekið 90 grunaða íslamska öfgamenn á þessu ári á Spáni. Jafnframt hefur lögregla handtekið rúmlega 600 síðan að öfgamenn sprengdu upp lest í Madríd árið 2004 þar sem 191 lét lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert