Sjálfstæði Katalóníu hafnað

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. AFP

Stjórnlagadómstóll Spánar hefur ógilt tillögu sem héraðsþing Katalóníu samþykkti um að hefja aðskilnað frá Spáni í dag. Mariano Rajoy, forsætisráðherra, tilkynnti um ákvörðun dómstólsins og sagði hana hafa verið samhljóða.

Tillagan var samþykkt í síðasta mánuði en samkvæmt henni átti að hefjast handa við að setja á fót sérstakt almannatryggingakerfi og fjármálastjórn til að undirbúa stofnun nýs og sjálfstæðs ríkis Katalóníu innan eins og hálfs árs.

Rajoy vísaði tillögunni hins vegar samstundis til stjórnlagadómstólsins. Hann frestaði gildistöku tillögunnar tímabundið á meðan hann fór yfir málið. Hann hefur nú hafnað henni endanlega.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekki sé hægt að stilla lýðræðislegum vilja héraðsþings Katalóníu upp gegn stjórnarskrá Spánar. Lögmæti pólitískra athafna felist í því að þær samræmist stjórnarskránni og lögum, að því er kemur fram í frétt La Vanguardia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert