Báru kennsl á þriðja manninn

Borin hafa verið kennsl á þriðja tilræðismanninn sem tók þátt í fjöldamorðunum í Bataclan tónleikahúsinu í París. Maðurinn heitir Foued Mohamed Aggad og er 23 ára gamall frá Strassborg.

Aggad fór ásamt bróður sínum til Sýrlands og hópi vina í lok árs 2013, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Flestir þeirra voru handteknir við komuna til Frakklands vorið 2014  en Aggad var áfram í Sýrlandi. Hann framdi sjálfsvíg með því að sprengja sig upp í Bataclan en það tókst að bera kennsl á hann með því að bera saman lífsýni hans og annarra í fjölskyldunni. Hinir tveir sem tóku þátt í árásinni í Bataclan hétu Omar Omar Ismail Mostefai, 29 ára og Samy Amimour, sem var 28 ára.

Reyndu að handsama Abaaoud í Aþenu

Gríska lögreglan reyndi að handsama Abdelhamid Abaaoud, sem er grunaður um að hafa verið höfuðpaurinn á bak við árásirnar í París 13. nóvember, í janúar en aðgerðin mistókst.

Þetta hefur BBC hefur heimildum innan hryðjuverkadeildar belgísku lögreglunnar. Handtaka átti Abaaoud í Aþenu áður en áhlaup var gert á hryðjuverkahóp í Belgíu skömmu eftir hryðjuverkin í París í janúar. Abaaoud stýrði hópnum í Belgíu í gegnum síma frá Aþenu. 

Abaaoud lést í átökum við frönsku lögregluna fimm dögum eftir árásinar sem kostuðu 130 lífið í nóvember.

Gríska lögreglan ætlaði að handtaka hann skömmu áður en sérsveit belgísku lögreglunnar gerði áhlaup á hryðjuverkahópinn í Verviers í austurhluta Belgíu 15. janúar. Tveir hryðjuverkamenn létust í áhlaupi lögreglunnar þar.

Samkvæmt frétt BBC var gríska lögreglan á hælunum á eftir Abaaouds og tók belgíska lögreglan þátt í aðgerðum í Aþenu. Það hefur hinsvegar ekki fengið upplýst hvað fór úrskeiðis í Aþenu og hvernig Abaaoud tókst að smjúga út úr neti lögreglunnar. Meðal annars var reynt að fylgjast með honum í gegnum merki frá farsíma hans án árangurs. 

17. janúar gerði gríska lögreglan húsleit á tveimur stöðum í Aþenu, tveimur dögum eftir áhlaupið í Verviers. Þann sama dag greindu belgískir fjölmiðlar frá því að yfirvöld þar í landi væru að leita Abaaoud og kom fram í fréttum að hann væri íbúi í Brussel, ættaður frá Marokkó og að talið væri að hann væri í felum í Grikklandi.

Fleiri tengingar við Grikkland

Talið er að Abdelhamid Abaaoud hafi tengst fjórum af sex árásum sem tókst að koma í veg fyrir í Frakklandi síðan í vor en hann var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrr á árinu. 

Abaaoud er hins vegar ekki eina tengingin milli Grikklands og árásanna í París því Salah Abdeslam, sem er enn á flótta, ferðaðist til Grikklands með ferju frá Ítalíu 1. ágúst en fór frá Grikklandi þremur dögum síðar.

Tveir sjálfsvígsárásarmannanna við Stade de France komu með bát frá Tyrklandi til grísku eyjunnar Leros í október. Þeir komu í dulargervi flóttamanna frá Sýrlandi.

Í frétt BBC kemur fram að margt að því sem fram hefur komið um tengsl þeirra við Aþenu hafi vakið spurningar um nauðsyn þess að upplýsingaflæði milli landa verði aukið og um leið samvinna hryðjuverkadeilda lögreglu landanna. 

Minntust fórnarlamba árásanna

Hljómsveitirnar U2 og Eagles Of Death Metal komu saman á tónleikum þeirrar fyrrnefndu í fyrrakvöld í AccorHotels-leikvanginum, skammt frá tónleikahöllinni Bataclan í París og minntust fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar sem var framin í höllinni 13. nóvember sl. og kostaði 90 manns lífið. Eagles of Death Metal var á sviði þegar árásarmenn hófu skothríð á tónleikagesti. Liðsmenn hennar komu á svið undir lok tónleika U2 og tóku hljómsveitirnar saman lagið „People Have The Power“ frammi fyrir um 16.000 gestum. „Við elskum þig, París,“ sagði söngvari Eagles of Death Metal, Jesse Hughes, áður en talið var í lagið.

Bono, söngvara U2, varð tíðrætt um hryðjuverk og fórnarlömb hryðjuverkamanna á tónleikunum og voru margir tónleikagesta klæddir stuttermabolum sem á stóð „Við erum ekki hrædd“. Aðrir veifuðu franska fánanum og Bono minntist á kjörorð frönsku byltingarinnar: frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Nöfn þeirra sem létust í árásunum 13. nóvember voru birt á stórum skjá á tónleikunum sem voru tilfinningaþrungnir, eins og von var á og segir frá í erlendum fjölmiðlum.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert