Mona Lisa ekki öll þar sem hún er séð

Mona Lisa er til sýnis í Louvre í París.
Mona Lisa er til sýnis í Louvre í París.

Hið dularfulla bros Monu Lisu hefur vakið umtal og spurningar meðal fólks í yfir 500 ár. En tilheyrir það kannski allt annarri konu en sést á myndinni?

Franski vísindamaðurinn Pascal Cotte segist hafa fundið þrjár aðrar myndir málaðar á strigann undir þeirri sem er sýnileg á meistaraverki Leonardos Da Vinci. Hann telur að eitt þeirra sé af Lisu del Giocondo, sem lengi hefur verið talið að sé fyrirmynd Monu Lisu.

Á einni hinna földu mynda er kona sem sést horfa inn í fjarlægðina. Sú brosir ekki. Cotte telur að hann hafi þar fundið hið upprunalega málverk af Lisu del Giocondo, einnig þekktri sem Lisu Gherardini, eiginkonu viðskiptamanns í Flórens.

Cotte notaði sérstaka tækni L.A.M) til að skoða hvað var málað undir myndina af Monu Lisu. „Þar liggja leyndarmál sem hafa verið falin í 500 ár,“ segir hann í frétt CNN um málið. „Þetta breytir allri goðsögninni og sýn okkar á þetta meistaraverk Leonardos að eilífu.“

Sagnfræðingurinn Martin Kemp er fullur efasemda um kenningar Cotte. Hann segir alþekkt að listmálarar geri margvíslegar breytingar á verkum sínum, þannig hafi því einnig verið farið í vinnu Leonardos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert