Dagblöð óvinsælasti fjölmiðillinn

Dagblöð virðast á útleið sem fréttamiðill ef marka má könnun …
Dagblöð virðast á útleið sem fréttamiðill ef marka má könnun Ofcom í Bretlandi. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Aðeins tæpur þriðjungur Breta les dagblöð til að fylgjast með málefnum líðandi stundar og hefur hlutfallið lækkað um tíu prósentustig á milli ára, samkvæmt könnun Ofcom, eftirlitsaðila breskra fjölmiðla. Sjónvarpið er áfram vinsælasti fréttamiðillinn en hlutur þess hefur einnig dregist saman.

Hrunið í hlutfalli þeirra sem reiða sig á dagblöð fyrir fréttir þýðir að þau eru nú minnst notaði fjölmiðillinn. Þar á eftir kemur útvarp, sem 32% svarenda sögðu helst nota til að fylgjast með fréttum, internetið með 41% og sjónvarp með 67%.

Hlutur allra „hefðbundnu“ fjölmiðlanna dregst saman en þeim fjölgar sem segjast fylgjast með fréttum í gegnum snjallsíma. Fjórðungur þátttakenda í könnuninni sögðust fá fréttir þaðan. Athygli vekur að þeim fjölgar einnig sem segjast fá fréttir í gegnum annað fólk, þeir eru nú 14%.

Fréttaneysla ungs fólks ber einnig vitni um breytta tíma. Um helmingur fólks á aldrinum 16-24 ára notar sjónvarpið til að fylgjast með fréttum en aðeins rétt rúmur fimmtungur reiðir sig á dagblöð og 23% á útvarp.

Alls segjast 59% unga fólksins fara á netið til að að skoða fréttir.

Frétt The Guardian af könnun Ofcom

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert