Klámmyndaleikari vill kenna kynfræðslu

Rocco Siffredi.
Rocco Siffredi. Af Wikipedia

Klámmyndaleikarinn Rocco Siffredi, betur þekktur sem ítalski folinn, krefst þess að kynfræðsla verði hluti af námsskrá í ítölskum skólum. Hann býðst til að kenna hana sjálfur.

„Ég vil hvetja til þessa því að kynlíf er stórkostlegt,“ skrifar hann á vefsíðu þar sem hann safnar undirskriftum vegna málsins. 

„Ég legg nafnið mitt við þetta og býð fram mína reynslu, ég er tilbúinn að fara í ítalska skóla í eigin persónu,“ skrifar hann ennfremur. Siffredi er 51 árs. 

Oftsinnis hafa verið lagðar fram tillögur um að setja kynfræðslu á aðalnámsskrá ítalskra skóla. Það hefur hins vegar ekki enn gengið eftir. 

Undirskriftarsöfnun Siffredi verður afhent menntamálaráðherra landsins en í dag höfðu 21.600 manns ritað nafn sitt undir hana. 

„Klám á að vera skemmtiefni en vegna þess að skortur er á kynfræðslu hefur það orðið að kennsluefni, sérstaklega hjá ungu fólki,“ skrifar Siffredi.  Hann segist hafa leikið í klámmyndum í þrjátíu ár og segir að á þeim tíma hafi hann öðlast það mikla reynslu að geta staðhæft að klám er ekki kynfræðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert